Fréttir

Samantekt stjórnar: nóv–des 2016

Stjórn félagsins hefur gert stutta samantekt á starfsemi félagsins í nóvember og desember, til samanburðar við starfsáætlun þá er lögð var fram í október síðastliðnum. Einnig er hægt að skoða samantekt fyrir september og október.

Fundahöld

Haldnir hafa verið fimm stjórnarfundir (fundir 8–12), tveir trúnaðarráðsfundir (fundir 2–3) og einn félagsfundur í nóvember og desember. Fjögur hagsmunafélög funduðu við stjórn Samtakanna ’78 í nóvember: BDSM á Íslandi, Félag hinsegin foreldra, HIN – Hinsegin Norðurland og Q – Félag hinsegin stúdenta. Farið var yfir samstarf þessara félaga og helstu verkefni sem eru á döfinni.

Fundargerðir af 8.–11. fundum stjórnar, 3. fundi trúnaðarráðs og félagsfundi í nóvember eru nú aðgengilegar á vef félagsins.

Vinnuferð til Akureyrar

Í tengslum við fundarhöld með HIN – Hinsegin Norðurland lögðu stjórn, fræðslustýra og varaformaður trúnaðarráðs S78 leið sína norður til Akureyrar í vinnuferð dagana 11.–13. nóvember. Auk sameiginlegs fundar stjórna S78 og HIN voru á dagskrá námskeið fyrir verðandi jafningjafræðara, opin hinseginfræðsla, fundur við fulltrúa fræðslunefndar Akureyrarbæjar og samtal við framhaldsskólanema um stofnun hinsegin félaga í framhaldsskólum.

Norðlenskir gestgjafar okkar tóku einstaklega vel á móti okkur og var það samdóma álit allra að ferðin hafi verið afar vel heppnuð. Stefnt er að auknu samstarfi milli landshluta á komandi misserum, einkum á sviði fræðslumála.

Félagsfundur í nóvember

22 manns sóttu félagsfund þann 17. nóvember kl. 18:00. Á fundinum var skipuð þriggja manna kjörnefnd fyrir aðalfund 2017, en hana skipa þau Alexander Björn Gunnarsson, Ásta Ósk Hlöðversdóttir og Svandís Anna Sigurðardóttir. Að auki voru lögð fram og rædd drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2017. Fundargerð félagsfundarins er aðgengileg hér.

Jólabingó

Jólabingó félagsins var endurvakið eftir árs hlé og haldið í Vinabæ með miklum glæsibrag þann 3. desember. Lotta Blaze Jóns fór fyrir vöskum hópi sjálfboðaliða sem öfluðu vinninga að andvirði 1,1 milljónar króna. Alls sóttu bingóið yfir 200 spilarar á öllum aldri og var hreinn ágóði af viðburðinum rúmar 550 þúsund krónur til styrktar félaginu.

Aðild að Öldrunarráði Íslands

Í desember gerðust Samtökin ’78 aðilar að Öldrunarráði Íslands eftir að starfshópur um það að eldast hinsegin hafði falið stjórn að sækja um aðild. Öldrunarráðið eru regnhlífarsamtök þeirra sem starfa að hagsmunum aldraðra hér á landi. 

Ráðning framkvæmdastjóra

Í kjölfar uppsagnar Auðar Magndísar Auðardóttur framkvæmdastýru var ráðist í að ráða eftirmanneskju hennar. Starfið var auglýst um mánaðamótin október/nóvember í Fréttablaðinu, á vef Vísis, á Facebook og auglýsingaveitunni Alfreð. Alls bárust fjórtán umsóknir um stöðuna. Eftir yfirferð á ráðningargögnum og viðtölum í samvinnu við mannauðsráðgjafa var Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir ráðin í starfið. Hún hóf störf nú um áramótin og bjóðum við hana velkomna til starfa.

Aðfangadagskvöld á Suðurgötu

Átta manns sóttu hátíðarkvöldverð á aðfangadag á Suðurgötu 3, sem haldinn var í umsjá Guðmundu Smára Veigarsdóttur meðstjórnanda og Sigríðar J. Valdimarsdóttur áheyrnarfulltrúa trúnaðarráðs. Gestir tóku saman þátt í að elda hátíðarmat, skiptust á gjöfum og sátu að spilum fram eftir kvöldi og var almenn ánægja með framtakið. Viðburðurinn vakti talsverða athygli fjölmiðla og var meðal annars sýnt beint frá undirbúningnum í hádegisfréttum RÚV á aðfangadag. Almennur vilji er til að festa þennan dagskrárlið í sessi.

Yfirferð félagskrár og viðhorfskönnun

Yfirferð á félagaskrá Samtakanna ‘78 stendur nú yfir, með það fyrir augum að afla gildra netfanga hjá öllum félögum og staðfesta um leið besta samskiptamáta við þá félaga sem ekki kjósa að notast við tölvupóst. Um leið og þær upplýsingar liggja fyrir verður viðhorfskönnun til félaga send út.

Undirbúningur Samtakamáttarins 2017

Samtakamátturinn, þjóðfundur hinsegin fólks, verður haldinn í annað sinn þann 11. febrúar næstkomandi. Verður hann haldinn í Tjarnarsal Ráðhússins, þökk sé góðfúslegum stuðningi Reykjavíkurborgar. Undirbúningur fyrir viðburðinn er í fullum gangi og frekari frétta að vænta á næstunni.

Starfsáætlun – staðan

Eftirfarandi verkefni voru áætluð í nóvember og desember skv. starfsáætlun þeirri sem kynnt var 6. október síðastliðinn. Engin verkefni stóðu eftir frá því í sept/okt.

nóvember

  • Gagnger yfirferð á félagaskrá
  • Vinnufundur stjórnar á Akureyri
  • Stjórn hittir fulltrúa frá hagsmunafélögum
  • Félagsfundur – kjörnefnd kosin, drög að fjárhagsáætlun kynnt
  • Tekinn upp þráður í samskiptum við nýkjörið Alþingi

desember

  • Jólabingó (3. des í Vinabæ)
  • Þorláksmessa á Suðurgötu
  • Viðhorfskönnun út til félagsfólks
  • Undirbúningur þjóðfundar – úrvinnsla gagna frá Samtakamættinum 2013

Vegna yfirstandandi stjórnarviðræðna hafa samskipti við nýkjörið Alþingi verið í biðstöðu. Þá hefur yfirferð félagaskrár ekki verið lokið, en viðhorfskönnun verður ekki send út fyrr en að henni lokinni. Þess utan er hefur öllum verkefnum verið lokið samkvæmt áætlun.