Fréttir

Fréttatilkynning frá Samtökunum ‘78 á alþjóðadegi gegn hómó-, tvikynhneigðar- og transfóbíu

Úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu:

Flest ríkin fá falleinkunn og margt ógert hér heima   

ILGA Europe, Evrópusamtök hinsegin fólks, birta nýja úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu. Yfirgnæfandi meirihluti ríkja fær falleinkunn og þúsundir íbúa um alla álfuna búa áfram við ótta um ofbeldi og ofsóknir. Ísland þokast upp á við á sviði löggjafar og stefnu stjórnvalda en margt er enn ógert.  

ILGA Europe, Evrópusamtök hinsegin fólks (lesbía, homma, tvíkynhneigðra, trans- og intersexfólks), hafa í tilefni Alþjóðadags gegn hómófóbíu og transfóbíu þann 17. maí gefið út Evrópska regnbogapakkann. Regnbogapakkinn er árleg úttekt á stöðu mannréttinda hinsegin fólks og samanstendur af Regnbogakorti og Ársyfirliti. Kortið mælir stöðu löggjafar og stefnu á sviðum jafnréttis og aðgerða gegn mismunun, fjölskyldumála, hatursorðræðu og -ofbeldis, lagalegrar staðfestingar kyns, funda-, félaga- og tjáningarfrelsis og málefna hælisleitenda. Mælt er í 49 Evrópuríkjum og stig gefin á skalanum 0 til 100%. Ársyfirlitið, sem nú er gefið út í annað sinn, veitir innsýn í daglegt líf og umhverfi hinsegin fólks en saman draga skjölin upp heildarmynd af stöðu hinsegin fólks í Evrópu.

Þúsundir búa við ofbeldi og ofsóknir – líka í „fyrirmyndarríkjum“

Samanburður á ólíkum ríkjum sýnir gjörólíka þróun mála. Sum lönd þokast í átt að jöfnum rétti til hjónabands, betri vernd gegn mismunun og ofbeldi og tryggja auðveldari og mannúðlegri ferla varðandi lagalega staðfestingu kyns. Þessi framþróun gerist hinsvegar oft samhliða samfélagslegu bakslagi og auknu ofbeldi. Í öðrum löndum veldur helst áhyggjum þróun í átt að hamlandi og óréttlátri lagasetningu eins og þeirri sem bannar „samkynhneigðaráróður“.

Martin K.I. Christensen, annar tveggja formanna ILGA Europe segir að Regnbogapakkinn sýni að hinsegin fólk eigi enn mjög langt í land. „Ekki eitt einasta ríki í Evrópu uppfyllir mælikvarðana. Í mörgum löndum snýst baráttan jafnvel ennþá um þau grundvallar borgara- og stjórnmálaréttindi sem við sem búum í lýðræðissamfélögum tökum flest sem sjálfsögðum hlut. Sú staðreynd að sum þessara landa eru innan ESB er okkur líka sérstakt áhyggjuefni,” segir Christensen.

Gabi Calleja, hinn formaður félagsins, bætir við að ástandið sé algerlega óviðunandi. Þannig skori sum landanna fjölda stiga vegna góðs lagaumhverfis á sama tíma og hinsegin íbúar þeirra upplifi allt annan veruleika. „Hlutfall hinsegin fólks sem lagar daglegt líf sitt að ótta við ofbeldi og ofsóknir á almannafæri er ótrúlega hátt – jafnvel í þeim löndum þar sem lagarammi og stefna eru hvað framsæknust. Niðurstöður könnunar Evrópustofnunar grundvallarmannréttinda (FRA) á högum 93 þúsund hinsegin borgara, sem verða kunngerðar þann 17. maí, styðja okkar niðurstöður. Þær sýna að 25% svarenda hafa upplifað ofbeldi á síðastliðnum fimm árum. Þetta bendir því miður til þess að mismunun sé lífsförunautur hinsegin fólks,” segir Calleja.

75% ríkja falla á prófinu og enn er margt ógert hér heima

Ísland hafnar í 10. sæti á Regnbogakortinu með 56% stiga og hækkar um eitt sæti milli ára. Ísland kemur fast á hæla Danmerkur og er örlítið framar Ungverjalandi og Þýskalandi. Bretland trónir á toppnum með 77% stiga en í næstu níu sætum eru Belgía (67%), Noregur (66%), Svíþjóð, Spánn og Portúgal (öll með 65%), Frakkland (64%), Holland (60%), Danmörk (57%) og Ísland (56%). Á hinum enda skalans sitja Rússar enn sem fastast í botnsætinu með 7%. Azerar og Armenar eru ekki langt þar fyrir ofan (8%). Þá koma Mónakóar og Moldóvar (10%), Úkraínumenn (12%) og Makedónar (13%). Þegar litið er yfir alla álfuna vekur athygli að rúmlega 75% ríkjanna (37 af 49) ná í raun ekki fimmtíu prósentum og hljóta þar með falleinkunn. Þar af eru 29 ríki undir 35%.

Þótt staðan á Íslandi sé mun betri en í flestum ríkjanna 49 eru Íslendingar eftirbátar granna sinna á Norðurlöndum, að Finnum undanskildum. Margt er enn ógert þegar kemur að stefnu stjórnvalda og löggjöf varðandi hinsegin fólk. Hér má fyrst nefna að engin verndarákvæði er að finna í stjórnarskrá. Þá er engin lögbundin stofnun til að fara með málaflokkinn og engin landsaðgerðaáætlun til í málefnum hinsegin fólks. Eins vantar verndarákvæði í lög til handa transfólki og hvergi er í löggjöfinni minnst á intersexfólk. Íslensk stjórnvöld hafa heldur ekki sett fram neina stefnu til að takast á við hatursorðræðu og -ofbeldi gagnvart hinsegin fólki.     

Evrópuráðið stendur vaktina á meðan ríki ESB draga lappirnar

Meðal evrópskra stofnana hefur mestum árangri verið náð á vettvangi Evrópuráðsins en á vegum þess er verið að koma upp kerfi sem hefur eftirlit með stöðu hinsegin fólks. Spurður um Regnbogapakka ILGA Europe segir Nils Muižnieks, mannréttindastjóri Evrópuráðsins, að Ársyfirlitið minni ríki á þá ábyrgð sem felist í gerðum þeirra og athöfnum. Auk þess varpi það gagnrýnu ljósi á starfsemi alþjóðastofnana. ILGA-Europe og aðildarfélög þess í ríkjum Evrópu hafi upplýsingar um ástand mála frá fyrstu hendi og deili með útgáfunni innsýn sinni og áhyggjum. „Yfirlitið er verðmætt verkfæri í þágu alvöru umræðu um stöðu mannréttinda hinsegin fólks um alla Evrópu. Til að þoka málum áfram þurfum við að byggja baráttu okkar á hörðum staðreyndum,“ segir Muižnieks.

Á vettvangi Evrópusambandsins hafa því miður engar sérstakar laga- eða stefnubreytingar í átt að jafnari rétti hinsegin fólks verið gerðar upp á síðkastið. Ríki sambandsins standa áfram í vegi fyrir upptöku alhliða Tilskipunar gegn mismunun (Anti-Discrimination Directive) og framkvæmdastjórn ESB hefur ekki gefið til kynna neinar fyrirætlanir um að leggja fram stefnu um Evrópuregluverk varðandi málefni hinsegin fólks – þrátt fyrir fjölda áskorana frá Evrópuþinginu og frjálsum félagasamtökum.

 

Hér fyrir neðan má finna Ítarefni sem tengist regnbogakortinu og regnbogavísitölunni:

  • ILGA Europe eru regnhlífarsamtök 408 mannréttindafélaga lesbía, homma, tvíkynhneigðra, transgender- og intersexfólks í 45 af 49 löndum Evrópu og hafa Samtökin ’78 á Íslandi átt aðild að þeim um árabil. Samtökin eru að stærstum hluta fjármögnuð af Evrópusambandinu:

Skoða nánar hér

  • Evrópski Regnbogapakkinn inniheldur tvö meginskjöl: Evrópska Regnbogakortið og Ársyfirlit yfir stöðu mannréttinda hinsegin fólks í Evrópu:

Skoða nánar hér

  • Evrópska regnbogakortið sýnir löggjöf og stefnu sem hafa bein áhrif á stöðu mannréttinda hinsegin fólks í 49 Evrópuríkjum. Regnbogakortið byggir á Evrópsku regnbogavísitölunni.

Skoða nánar hér

  • Evrópska regnbogavísitalan er mælikvarði sem tekur á ólíkum þáttum í lögum og stefnu Evrópuríkja og  sýnir stöðuna í hverju landi fyrir sig á skalanum 0 til 100%.

Skoða nánar hér

  • Ársyfirlit yfir stöðu mannréttinda hinsegin fólks í Evrópu veitir innsýn í samfélagslega og pólitíska þróun og gefur hugmynd um daglegt líf og umhverfi hinsegin fólks í ólíkum ríkjum. Ársyfirlitið styður þar af leiðandi Regnbogakortið sem einblínir meira á lagalega stöðu.

Skoða nánar hér

  • Stigatöflur einstakra ríkja

Skoða nánar hér

  • Regnbogakortið og -vísitalan útskýrð

Regnbogakortið/vísitalan mælir stöðu laga og stefnu ríkja í 6 málaflokkum: jafnrétti og aðgerðir gegn mismunun; fjölskylda; hatursorðræða/ofbeldi; lagaleg staðfesting kyns; funda-, félaga- og tjáningarfrelsi; og málefni hælisleitenda.

Meginreglan er sú að bein skírskotun sé í kynhneigð og kynvitund (eða sambærilegt) í viðkomandi lögum eða stefnu; eða að lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, trans- og intersexfólk séu séu meðhöndluð á jafnréttisgrundvelli í lögum eða af ríki. Í kortinu er miðað við að löggjöf eða stefna séu til staðar um leið og slíkt hefur verið samþykkt af viðkomandi þjóðþingi.

Regnbogakortið nær ekki yfir samfélagslega stöðu, þar sem ekkert slíkt yfirlit/mælikvarði er mögulegur fyrir öll 49 ríki Evrópu enn sem komið er.

Nánari upplýsingar um aðferða- og hugmyndafræði:

Skoða nánar hér