SLÓVENSK SKÁLD Á JÓNSMESSU Í SAMTÖKUNUM 78.

Fimmtudaginn 24 júní kl 21 er boðið uppá ljóðalestur í félagsheimili Samtakanna 78.  Þá heimsækja okkur tvö Slóvensk samkynhneigð skáld, Brane Mozetic og Suzana Tratnik.  Þau eru vel þekkt í heimalandi sínu og hefur Brane mikið starfað með samtökum samkynhneigðra þar í landi.  Þau munu lesa úr verkum sínum og þrjú íslensk skáld lesa þýðingar sínar á verkum þeirra.  Íslensku skáldin eru Þórunn Valdimarsdóttir, Sigurður Pálsson og Böðvar Björnsson. Þetta verður góð og næringarrík skemmtun.  Fjölmennum!

Hér fyrir neðan má sjá nánar um heimsókn skáldanna hingað til lands. 

 
Um nokkurt skeið hefur stofnun á vegum Evrópusambandsins, Literature Across Frontiers (LAF), styrkt samskipti og þýðingar fjölda evrópskra skálda og rithöfunda. Slóvensk skáld og íslensk hafa hist í þýðingabúðum LAF í Alsír og Slóveníu og þýtt ljóð og texta. Koma þriggja slóvenskra skálda til landsins nú er ávöxtur þessarar samvinnu, en Miðstöð slóvenskra bókmennta og Bókastofa Slóvena styrkti komu þeirra hingað. Slóvenarnir lesa ljóð sín og þriggja íslenskra skálda á slóvensku en Íslendingarnir lesa eigin ljóð og þýðingar á ljóðum slóvensku skáldanna.
 
Slóvensku gestirnir eru þau Brane Mozetic, Suzana Tratnik og Marjana Moskric, en þau íslensku eru Böðvar Björnsson, Sigurður Pálsson og Þórunn Valdimarsdóttir.
 

BraneMozetičer fæddur árið 1958 í Slóveníu. Hann er höfundur tólf ljóðabóka og þriggja skáldverka. Auk þess hefur hann þýtt meira en 20 bækur, meðal annars Rimbaud, Genet, Foucault, Guibert. Tvær ljóðabóka hans hafa komið út í Bandaríkjunum. Hann býr í Ljubljana,.
Suzana Tratnikfæddistárið 1963 í Murska Sobota í Slóveníu. Hún er menntuð í félagsfræði og mannfræði, býr og starfar í Ljubljana við skriftir, þýðingar og útgáfu. Suzana hefur gefið út fimm smásagnasöfn, tvær skáldsögur, barnabók, leikrit og tvær bækur aðrar. Hún hlaut verðlaun Prešeren’s sjóðsins fyrir besta slóvenska skáldverkið árið 2007. Bækur hennar hafa verið þýddar á meira en fimmtán tungumál. Hún hefur þýtt breskar og bandarískar bókmenntir og leikrit.
 
Marjana Moškrič(1958) lærði bókmenntir og slóvensku og hefur unnið á bókasafni í Ljubljana þar sem hún starfar með börnum. Hún gaf út sína fyrstu bók árið 1998, bréfaskáldsöguna sem var tilnefnd sem besta nýja skáldsaga ársins. Þrjár barnabækur fylgdu í kjölfarið, þar á meðal myndabók sem hún myndskreytti sjálf. Hún hefur einnig skrifað skáldsögu fyrir fullorðna. Bækur hennar fjalla kaldhæðnislega um æsku, ást, vináttu og fjölskyldu. Marjana hefur hlotið tvenn barnabókaverðlaun: The Desetnica Award, 2009 og The Vecernica Award, 2003.
 
Slóvenarnir munu dvelja hér á landi dagana 22.-27. júní. Fimmtudaginn 24. júní klukkan 21:00 lesa þau upp í félagsmiðstöð Samtakanna ’78. Föstudaginn 25. júní lesa þau upp í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu klukkan 15:00 og eru allir velkomnir. Fundarstjóri verður Kristín Ómarsdóttir.