3. Trúnaðarráðsfundur 23. nóvember, 2017 Trúnaðarráð Samtakanna ’78 Starfsárið 2017 – 2018 3. fundur Fundinn sátu: Alda Villiljós, Andres Palaez, Guðný Guðnadóttir, Hrafn Elí Gunnars, Ingileif Friðriksdóttir, Jóhann G. Thorarensen, Ragnhildur Sverrisdóttir og Sigríður J. Valdimarsdóttir. Fundur settur kl. 17:00. 1. Fundur með stjórn í janúar Formaður lagði fram að haldinn yrði fundur stjórnar, trúnaðarráðs og hagsmunaráðs í janúar næstkomandi. Síðasti sameiginlegi fundur var haldinn í maí sl. Ráðið sammála um mikilvægi þess að halda annan slíkan fund. Formaður hyggst búa til Doodle-skjal þar sem hægt verður að finna tíma fyrir fundinn. Stjórn er einnig á sama máli um að halda þurfi slíkan fund í janúar. 2. Jólin Sigríður og Andres hafa haldið utan um jólabingó sem haldið verður þann 2. desember nk. klukkan 16 í Vinabæ. Andvirði vinninga var komið upp í 940 þúsund þegar fundur fór fram. Samþykkt var að vinningum yrði pakkað inn dagana 30. desember (á milli kl. 17 og 20) og 1. janúar (frá kl. 17). Þau sem komast þá daga munu leggja hönd á plóg. Samþykkt að trúnaðarráð sæi um opið hús með jólaþema þann 14. desember nk. Sigríður mun bera ábyrgð á opna húsinu. Hugmyndir um að skreyta húsnæðið (ræða þarf þá við Magnús um skreytingar svo þær komi ekki niður á galleríinu). Vangaveltur um að þar myndi fólki bjóðast að skreyta piparkökur og búa til jólaskreytingar. Fyrir það þarf þá að kaupa piparkökur ofl. Daníel segir að Sigríður geti keypt og sent honum reikninginn. Guðný og Jóhann munu einnig sjá um opið hús þann 21. desember þar sem hugmyndir kviknuðu um að hægt væri að bjóða upp á jólagjafainnpökkun eða annars konar jólaskemmtun. Húsið er einnig laust á Þorláksmessu, þann 23. desember, þar sem einnig væri hægt væri að bjóða upp á jólagjafainnpökkun. Alda benti á að Trans Ísland, Hinseginkórinn og Q félagið yrðu með markað þann 16. desember á milli 11 og 17. Vangaveltur um það hvort trúnaðarráð tæki einnig þátt. 3. Ályktun Hugmynd kviknaði um að trúnaðarráð myndi skrifa ályktun til stjórnmálaflokkanna um að koma málefnum hinsegin fólks inn í stjórnarsáttmála, og koma henni svo áfram á stjórn sem gæti birt hana í nafni Samtakanna ’78. Formaður bauðst til að skrifa ályktun og setja inn á sameiginlegan Facebook-hóp stjórnar, trúnaðarráðs og hagsmunaráðs. Sameiginlegur vilji til að birta slíka ályktun á allra næstu dögum, enda stjórnarsáttmáli í bígerð í þessum skrifuðu. Ráðið sammála um að mikilvægt væri að fjalla um lagasetningu og fjárframlög í ályktuninni. Jafnframt sammála um að ályktunina beri að birta á Facebook-síðu S’78, vef S’78 og í tölvupóstum til stjórnmálaflokkanna. Ragnhildur benti á að auðveldasta leiðin til að koma ályktuninni áleiðis væri að senda hana á Svandísi Svavarsdóttur, þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, enda hafi hún talað fyrir hinsegin málefnum og lagt til breytingar á lögum. Umræður um að mikilvægt sé að þær lagabreytingar nái fram að ganga á fyrstu mánuðum þingsins. 4. Stefna um umhverfis- og jafnréttismál Daníel hafði bent formanni á að gott væri að fá fleiri aðila að borðinu við breytingu á stefnu S’78 í umhverfis- og jafnréttismálum. Hugmyndin væri sú að skilja þessi tvö málefni að og búa til heildræna stefnu um hvort tveggja. Alda, Jóhann, Sigríður og Guðný buðu sig fram til að taka þátt í þeirri vinnu. Fundi slitið kl. 17:56 Fundargerð ritaði Ingileif Friðriksdóttir