Samtökin ’78 bjóða upp á fría ráðgjöf til hinsegin fólks, aðstandenda hinsegin fólks og fagfólks. Fullur trúnaður gildir um ráðgjöfina.
Árlega nýta fjölmargir sér ráðgjafaþjónustuna. Við bjóðum upp á ráðgjöf vegna persónulegra mála, félags- og sálfræðiráðgjöf og einnig lögfræðiráðgjöf. Hjá okkur starfa sjö ráðgjafar hver og einn sérfræðingur í sínu fagi með mikla reynslu af hinseginleika hvers konar.
Hægt er að fá einstaklingsviðtöl eða koma fleiri saman, t.d. par, vinir eða fjölskyldur.
Dæmi um það sem hægt er að ræða við ráðgjafa okkar, listinn er ekki tæmandi.
Einnig bjóðum við upp á ráðgjöf til kennara, fagfólks, aðstandendur o.fl. Vertu í sambandi og bókaðu ráðgjöf, það er öllum hollt að tjá sig.
Samtökin ’78, félag hinsegin fólks á Íslandi, bjóða upp á ráðgjöf í formi viðtalstíma. Ráðgjöfin getur farið fram bæði í gegnum síma og í eigin persónu og er fyrir einstaklinga, fólk í samböndum og fjölskyldur. Hægt er að hafa samband við ráðgjafa símleiðis eða í gegnum tölvupóst. Ráðgjafarnir hitta skjólstæðinga sína í ráðgjafaherbergi í húsnæði Samtakanna ’78 (þeir hafa eitt herbergi til umráða). Skjólstæðingum stendur til boða að mæta án endurgjalds í allt að þrjú skipti, en að þeim tímum loknum gefst fólki kostur á að mæta í viðtöl gegn greiðslu. Ráðgjafar Samtakanna ’78 benda einnig á aðra meðferðaraðila, telji þeir það eiga við – sem og ef fólk leitar eftir því.
Ráðgjöf Samtakanna ’78 er fyrst og fremst hugsuð fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þeirra og er markmiðið að styðja þennan hóp og auka lífsgæði hans. Ráðgjöfin er öllum opin, félagsmönnum jafnt sem öðrum. Nær allir sem leita til ráðgjafa Samtakanna ’78 eiga það sameiginlegt að vera hinsegin eða aðstandendur hinsegin fólks. Flestir eru að takast á við mál sem tengjast kynhneigð eða kynvitund á einhvern hátt. Margir eiga við kvíða, þunglyndi og/eða félagslega einangrun að stríða og einnig geta verið vandkvæði í samskiptum við fjölskyldu og/eða annar vandi. Eins leita fagaðilar og stofnanir til ráðgjafanna um ráð og upplýsingar.
Mjög misjafnt er hver tilgangur fólks er sem leitar til ráðgjafanna. Sumir koma eingöngu vegna hinsegin mála hjá þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum, á meðan aðrir leita til ráðgjafanna vegna annarra mála samhliða þeim, vitandi að þeim verður vel tekið og að hinsegin málefni munu ekki flækjast fyrir ráðgjöfinni.
Fólki getur þótt erfitt að leita til fagaðila og ræða sína kynhneigð og/eða kynvitund án þess að vera viss um að sá aðili hafi þekkingu á þessum málaflokkum. Samtökunum ’78 hafa borist fregnir frá félagsmönnum sem hafa leitað til ráðgjafa annars staðar og fengið ófullnægjandi þjónustu vegna vanþekkingar á hinsegin málefnum og jafnvel upplifað fordóma. Þetta getur m.a. birst í tilhneigingu meðferðaraðila til að taka ekki tillit til kynhneigðar og/eða kynvitundar.
Einnig þekkist það að meðferðaraðili vilji alhæfa, tengja alla líðan við kynhneigð og/eða kynvitund og gera þessar breytur að aðalumræðuefni þótt þær séu það ekki og fólk sé að leita sér ráðgjafar til að ræða allt önnur mál. Einstaklingar sem leita til ráðgjafa hjá Samtökunum ’78 eru því að koma inn á öruggt svæði. Þar er kynhneigð og/eða kynvitund þeirra tekið sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut og ekki lagt út af þeim breytum ef það á ekki við.