Aðalfundargerð 2020 8. mars, 2020 Aðalfundur Samtakanna 78 Norræna húsinu, 8. mars 2020 Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setur aðalfund með ávarpi kl 13:00. Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður veitir f.h. stjórnar starfsfólki félagsins virðingarvotta fyrir unnin störf. 1. Skipan fundarstjóra og fundarritara Formaður gerir tillögu að Semu Erlu Serdar sem fundarstjóra og Gísla Garðarssyni sem fundarritara. Eru þau kjörin með lófataki. 2. Lögmæti aðalfundar staðfest Fundarstjóri fer yfir lögmæti aðalfundar og er það staðfest án andmæla. 3. Ársskýrsla fyrra starfsárs Formaður kynnir ársskýrslu fyrra starfsárs. Hún liggur frammi á vefsíðu félagsins og vísast þar til um efnistök. Formaður opnar á spurningar og umræður um skýrslu. Saga Emelía Sigurðardóttir spyr hvort Samtökin 78 séu komin á fjárlög. Formaður staðfestir það og að það sé risastór sigur sem megi þakka Daníel E. Arnarssyni framkvæmdastjóra. Félagið hafi fengið 20 milljónir til umráða og geti ráðstafað þeim að vild. Það sé til gífurlegra bóta að geta veitt fjármunum þangað sem félagið telja mest á ríða en passa verði samtímis að samtökin missi ekki bit sitt og verði meðvirk með kerfinu. Saga Emelía Sigurðardóttir spyr hvort að aðild að Almannaheill – samtökum þriðja geirans komi til greina. Formaður segir það koma til greina. Ársskýrsla er samþykkt með lófataki. 4. Áritaðir reikningar fyrra árs kynntir og bornir upp til samþykktar Fundarstjóri biður framkvæmdastjóra að kynna reikninga áður en þeir verði teknir til umræðu. Verður framkvæmdastjóri við því. Reikningar liggja frammi á vefsíðu félagsins og vísast þar til um efnistök. Framkvæmdastjóri opnar fyrir spurningar og umræður um ársreikninga með leyfi fundarstjóra. Bent er á úr sal að sleppt hafi verið kynningu á funda- og ferðakostnaði. Framkvæmdastjóri kynnir hann stuttlega. Fundarstjóri leggur fram ársreikninga til samþykktar. Ársreikningar eru samþykktir samhljóða. 5. Fjárhagsáætlun ársins lögð fram til kynningar Fundarstjóri biður framkvæmdastjóra að kynna fjárhagsáætlun áður en hún verði tekin til umræðu. Verður framkvæmdastjóri við því. Fjárhagsáætlun liggur frammi á vefsíðu félagsins og vísast þar til um efnistök. Spurt er úr sal hvort að ný stjórnvöld gætu fallið frá fjármagni til félagsins á fjárlögum. Framkvæmdastjóri segir að það gæti hugsanlega orðið en að það myndi ekki valda félaginu miklum vanda þar sem þessu fjármagni sé varið í að styrkja grunnstoðir félagsins en ekki til að stofnsetja ný verkefni. Þjónustusamningi sé ekki hægt að rifta einhliða enda gæti félagið þá sótt stjórnvöld til saka fyrir dómstólum. Spurt er úr sal hversu lengi það sé ráðgert að vera á fjárlögum. Framkvæmdastjóri svarar að fjármagn til félagsins á fjárlögum sé til eins árs en að stefnt sé að því að vera áfram á fjárlögum. Unnsteinn Jóhannesson varaformaður biður framkvæmdastjóra að kynna hvernig stefnt sé að því að auka fjármögnun og verður framkvæmdastjóri við því. Fundarstjóri spyr hvernig fjárlagagreiðslum sé háttað. Framkvæmdastjóri svarar að þær séu lagðar inn á reikning félagsins í eingreiðslu fyrir 10. mars nk. 6. Laga- og stefnuskrárbreytingar Fundarstjóri kynnir þær lagabreytingatillögur sem liggja fyrir. Þær liggja frammi á vefsíðu félagsins og vísast þar til um efnistök. Lagabreyting 1 Enginn óskar eftir því að taka til máls um tillöguna. Er hún borin upp til samþykktar eða synjunar. Er hún samþykkt með þorra atkvæða gegn 1 mótatkvæði og 1 hjásetu. Lagabreyting 2 Enginn óskar eftir því að taka til máls um tillöguna. Er hún borin upp til samþykktar eða synjunar. Er hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Lagabreyting 3 Rætt er um orðalag breytingartillögunnar. Lagt er til að fundurinn veiti stjórn heimild til að breyta málfars- og réttritunarvillum í samþykktum tillögum. Er sú heimild borin upp til samþykktar eða synjunar. Fundurinn samþykkir þá heimild með öllum greiddum atkvæðum. Gerð er breytingartillaga við breytingartillögu úr sal um að önnur setning breytingatillögunnar verði: „Í samráði við trúnaðarráð ber hann ábyrgða á að starfsemi fari fram samkvæmt lögum þessum.“ Fundarstjóri ber upp breytingartillöguna við breytingartillöguna og breytingartillöguna sjálfa samtímis. Eru breytingarnar samþykktar án mótatkvæða. Gerð er breytingartillaga við breytingartillögu úr sal um að síðasta setning verði „Formann trúnaðarráðs skal kjósa til eins árs.“ Marion Lerner útskýrir að augljóst sé hvaða formann sé átt við af samhengi. Breytingartillögunni við breytingartillögu er þó haldið til streitu. Er hún borin upp til samþykkis eða synjunar. Samþykkir eru 12 en 18 sitja hjá. Er hún þannig samþykkt án mótatkvæða. Svo breytt er breytingartillagan um niðurfellingu í síðustu setningu greinarinnar borin upp til samþykktar. Er hún samþykkt samhljóða. Lagabreyting 4 Borin er upp breytingartillaga um að fyrsta setning verði „Trúnaðarráð og hagsmunaráð skulu funda með formanni Samtakanna ´78 í upphafi starfsárs, sbr. Gr. 5.3. Auk þess skulu stjórn, trúnaðarráð og hagsmunaráð funda tvisvar sinnum á ári.“ Er hún samþykkt samhljóða. Borin er upp breytingartillaga um að við bætist setningin „Ef meirihluti stjórnar, trúnaðarráðs eða hagsmunaráðs óskar eftir sameiginlegum fundi skal formaður stjórnar annast boð sameiginlegs fundar innan tveggja vikna frá því að beiðni um fundinn kom fram.“ Er hún samþykkt samhljóða. Borin er upp breytingartillaga um að út sé tekið „og meirihluti kjörinna fulltrúa sé á fundi.“ Er hún samþykkt með meirihluta atkvæða gegn 2 hjásetum. Svo breytt er grein 5.6 borin upp til samþykkis eða synjunar. Er hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Lagabreyting 5 Lagabreyting 4 er skipt upp í tvær breytingartillögur. Lagabreyting 5 verður því sú breytingartillaga um að grein 5.7 verði felld út úr lögum félagsins og er hún borin upp til samþykktar eða synjunar. Er hún samþykkt samhljóða Lagabreyting 6 Lagabreyting 5 verður lagabreyting 6 vegna uppskiptingar fyrri lagabreytingartillögu. Breytingartillagan er borin upp til samþykkis eða synjunar. Er hún samþykkt með þorra atkvæða. Lagabreytingar í heild sinni Lagabreytingar eru bornar upp í heild sinni til samþykkis eða synjunar. Eru þær samþykktar samhljóða. Gert er hlé á aðalfundi kl. 14:18. Aðalfundi er fram haldið kl. 14:32. 7. Kjör til formanns Fundarstjóri afsalar sér fundarstjórn til Svönu formanns kjörstjórnar. Formaður kjörstjórnar óskar eftir leyfi fundarins til að kjósa formann og stjórn samhliða. Er leyfið veitt með lófataki. Kjörstjórn er kynnt og tilkynnt að framkvæmdastjóri muni hjálpa við talningu. Ein er í framboði sitjandi formaður. Gengið er til kosninga og atkvæði eru talin. 45 atkvæði voru greidd. Þorbjörg Þorvaldsdóttir er kjörin formaður með öllum greiddum atkvæðum. 8. Kjör til stjórnar 6 eru í framboði til stjórnar og vísast til heimasíðu um framboð þeirra. Kosið er um 4 stjórnarmenn. Er því frambjóðendunum 6 veitt kostur á að vera í framboði til trúnaðarráðs, nái þeir ekki stjórnarkjöri. Allir eru samþykkir því utan eins frambjóðanda, Eddu Sigurðardóttur. Frambjóðendur kynna framboð sín í stafrófsröð. Gengið er til kosninga og atkvæði eru talin. Kjöri náðu Bjarndís Helga Tómasdóttir með 45 atkvæði, Andrean Sigurgeirsson með 43 atkvæði, Unnsteinn Jóhannsson með 42 atkvæði og Edda Sigurðardóttir með 39 atkvæði. 9. Kjör í trúnaðarráð 11 eru í framboði til trúnaðarráðs og eru þau beðin um að standa upp þegar nöfn þeirra eru lesin upp í stafrófsröð. Kosið er um 10 manns. Gengið er til kosninga og atkvæði eru talin. Varðandi framkvæmd kosninga er því beint til stjórnar af kjörstjórn að ekki verði kosið utan kjörfundar um trúnaðarráð, þar sem að hægt sé að bjóða sig fram til trúnaðarmanns fram að aðalfundi. Þykir kjörstjórn einsýnt að það hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna að ný framboð hafi staðið verr að vígi. Kjöri náðu Jódís Skúladóttir með 39 atkvæði, Agnes Jónasdóttir með 37 atkvæði, Elísabet Rakel Sigurðardóttir með 33 atkvæði, Sigtýr Ægir Kárason með 32 atkvæði, Anna Eir Guðfinnudóttir með 31 atkvæði, Ragnar Pálsson með 27 atkvæði, Eyþór Óli Borgþórsson og Kristín Ástríður Ásgeirsdóttir með 24 atkvæði, Ástrós Erla Benediktsdóttir með 23 atkvæði og Steinar Svan Birgisson með 21 atkvæði. 10. Kjör skoðunarmanna reikninga Í framboði eru 2: Sigurjón Guðmundsson og Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson. Eru þeir kjörnir með lófataki. 11. Afgreiðsla umsókna um hagsmunaaðild Tvö félög hafa óskað eftir hagsmunaaðild: Hinsegin Austurland og Bangsafélagið. Jódís Skúladóttir formaður Hinsegin Austurlands kynnir umsókn félagsins. Gengið er til kosninga og atkvæði eru talin. 37 atkvæði voru greidd. Hinsegin Austurland hlaut aðild með 37 atkvæði og Bangsafélagið hlaut aðild með 35 atkvæðum en 2 voru auð. 12. Önnur mál Fundarstjóra er aftur falin stjórn fundarins af formanni kjörstjórnar. Rúnar Þór tekur til máls Rúnar skilar þökkum til fundarins og sér í lagi Hinsegin Austurlands og stjórnar Samtakanna 78. Tillaga um stofnun starfshóps Unnsteinn Jóhannsson leggur til eftirfarandi tillögu: Lagt er til að nýkjörin stjórn stofni starfshóp sem leiði ferli til að endurskoða og velta upp tilgangi trúnaðar- og hagsmunaráðs. Með það að leiðarljósi að gott samráð við félagsfólk verði viðhaft. Einnig að samskipti og samstarf hagsmunafélaga og stjórnar verið skoðað með tilliti til hvernig megi styrkja og styðja við hagsmunafélögin. Sem og að skýra tilgang þess hvernig samstarfinu sé háttað. Edda Sigurðardóttir spyr hvort lagt sé til að skipaður verði vinnuhópur. Unnsteinn jánkar því og segist leggja til að stjórn skipi á hveitibrauðsdögum sínum slíkan hóp sem skili tillögum til næsta aðalfundar. Steinar Svan Birgisson spyr hvort tilgangurinn sé óljós núna. Unnsteinn svarar því til að stundum hafi það verið þannig og óskað sé eftir því að þessi starfshópur skoði hvort að tilefni sé til að skýra tilgang trúnaðarráðs. Formaður kjörstjórnar lýsir því yfir að hún sé sammála Unnsteini enda hafi trúnaðarráð verið stofnað áður en hagsmunafélög urðu til. Telji hún að trúnaðarráð hafi skilað sínu og upphaflegur tilgangur sé ekki til staðar lengur. Tillagan er borin upp til samþykktar eða synjunar. Tillagan er samþykkt með þorra atkvæða gegn 1 hjásetu. Tillaga um umsókn að aðild að ÖBÍ Steinar Svan Birgisson þakkar fyrir góðan fund. Leggur hann til eftirfarandi tillögu um að sótt verði um aðildarumsókn að ÖBÍ. Marion Lerner gerir þá breytingartillögu að tillagan verði að stjórn kanni umsókn að ÖBÍ. Edda Sigurðardóttir tekur undir með Marion. Breytingartillagan er borin upp til samþykktar eða synjunar. Er breytingartillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn 1 mótatkvæði. Tillagan hljóðar svo eftir samþykktar breytingar: Stjórn er falið umboð til að skoða inngöngu í Öryrkjabandalagið sem aðildarfélag að bandalaginu. Tillagan er borin upp svo breytt til samþykkar eða synjunar. Tillagan er samþykkt með þorra atkvæða gegn 2 hjásetum. Tillaga um aðildarumsókn að Almannaheill – samtökum þriðja geirans Saga Emelía Sigurðardóttir leggur fram eftirfarandi tillögu: „Stjórn Samtakanna 78 í samráði við trúnaðarráð og hagsmunaráð vinni að því að Samtökin 78 fái aðild að Almannaheill – samtökum þriðja geirans.“ Marion Lerner leggur til þá breytingartillögu að „í samráði við trúnaðarráð og hagsmunaráð“ falli út úr tillögunni. Breytingartillagan er borin upp til samþykktar eða synjunar. Er hún samþykkt með þorra atkvæða gegn 1 hjásetu. Formaður leggur fram þá breytingartillögu að „vinni að því að Samtökin 78 fái aðild“ í tillögunni verði „kanni möguleikann á því að Samtökin 78 sæki um aðild“. Breytingartillagan er borin upp til samþykktar eða synjunar. Er hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Tillagan hljómar svo með samþykktum breytingum: Stjórn Samtakanna 78 kanni möguleikann á því að Samtökin 78 sæki um aðild að Almannaheill – samtökum þriðja geirans. Svo breytt er tillagan borin upp til samþykktar eða synjunar. Er hún með samþykkt með þorra atkvæða gegn 1 hjásetu. Inga Auðbjörg Straumland tekur til máls Inga þakkar fyrir vel skipulagðan og góðan aðalfund. Ályktun lögð fyrir aðalfund Samtakanna ´78 2020 Lögð er fram eftirfarandi ályktun: Í ár telja Samtökin ´78 sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á stöðu hinsegin barna og ungmenna í íslensku samfélagi. Intersex börn hafa enn ekki hlotið vernd gegn þeim mannréttindabrotum sem ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama þeirra eru. Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins, sem stofnuð var á grundvelli bráðabirgðaákvæðis laga um kynrænt sjálfræði, á innan skamms að skila drögum að nýrri löggjöf sem veitir þessum hópi loksins lagalega vernd. Við treystum því að nefndin vinni hratt og vel, því núverandi ástand er óboðlegt. Hinsegin börn á flótta eru einn allra viðkvæmasti hópur sem fyrirfinnst og alveg ljóst að íslensk stjórnvöld verða að vinna þeirra mál sérstaklega vel. Nýlega kom inn á borð til Samtakanna ´78 afar þungt mál sem varðar hinsegin barn á flótta. Málið hafði ekki verið fullrannsakað með hagi barnsins í fyrirrúmi og varparljósi á brotalöm innan kerfisins. Við skorum á stjórnvöld að vanda til verka og setja mannúð og mannvirðingu í fyrsta sæti í öllum hælismálum, sama hvern þau varða. Nú í byrjun janúar var trans teymi BUGL lagt niður vegna fjárskorts og er það með öllu óásættanlegt. Staða trans barna er sérstaklega viðkvæm. Það að trans börn njóti viðurkenningar og fái sérfræðiþjónustu eru lykilþættir til að vinna gegn vanlíðan þeirra, dragaúr sjálfskaða og sjálfsvígshættu. Stjórnvöld þurfa að sýna að þeim er alvara með þeim lögum sem þau setja og bregðast tafarlaust við þessu ástandi. Ályktunin er samþykkt með lófataki. Fundi slitið Fundarstjóri þakkar fyrir sig, góðan fund, góðan félagsskap og hamingju. Felur hún formanni stjórn fundarins. Formaður slítur aðalfundi með ávarpi til fundarins, virðingarvotti til fráfarandi stjórnarmeðlima, starfsmanna fundarins og kjörnefndar sem og hamingjuóska til nýkjörinnar stjórnar kl. 16:24.