Í septembermánuði opnaði nýr fræðsluvefur tileinkaður hinsegin fólki, hinsegin menningu og hinsegin hugtaka- og orðanotkun. Að vefnum standa Auður Magndís Auðardóttir og Íris Ellenberger. Auður Magndís er félagsfræðingur, doktorsnemi í félagsfræði menntunar og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún var áður meðal annars verkefnastjóri Jafnréttisskóla Reykjavíkur og framkvæmdastjóri Samtakanna ’78. Auður hefur tekið þátt í hinsegin og femínískum aktívisma síðastliðin 15 ár. Íris Ellenberger er sagnfræðingur með áherslu á sögu kynverundar og fólksflutninga. Hún starfar sem nýdoktor á Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Íris hefur tekið virkan þátt í hinsegin aktívisma, femínisma og umhverfisvernd. Hún hefur einnig ritað fjölmarga pistla um hinsegin málefni og birt niðurstöður fræðilegra rannsókna um lesbíur og femínisma á Íslandi á níunda áratug 20. aldar og hugmyndina um Ísland sem hinsegin paradís í sögulegu samhengi. Þá er hún einn ritstjóra Svo veistu að þú varst ekki hér, fyrsta íslenska greinasafnsins um hinsegin sögu og hinsegin fræði. Á nýja vefnum má lesa sér til um hinsegin orðanotkun, hugtök er tengist hinsegin heiminum og einnig reynslusögur hinsegin fólks. Um leið og við hvetjum fólk til að heimsækja vefinn þá viljum við í Samtökunum '78 óska þeim Auði og Írisi innilega til hamingju með faglegan og flottan vef. http://www.otila.is/