Stjórn Samtakanna ‘78 hefur boðað til félagsfundar þann 1. júní næstkomandi klukkan 20.00 á Suðurgötu 3. Á fundinum býðst félagsfólki að taka þátt í stefnumótun fyrir komandi mánuði og gefa kost á sér í nefndir og starfshópa. Heitt á könnunni og öll velkomin – jafnt gömul andlit sem ný! Félagsfundurinn er liður í að svara kalli um virkt samtal milli stjórnar og félagsfólks. Stjórn og trúnaðarráð munu bera starfsáætlun sína undir fundargesti og fara yfir helstu markmið og verkefni næstu mánaða. Meðfylgjandi eru einnig tillögur stjórnar og trúnaðarráðs að nokkrum starfshópum og nefndum. Sumar þeirra eru þegar starfandi, aðrar nýjar af nálinni. Sé fólk með hugmyndir að hópum/nefndum má gjarnan senda þær á netfangið stjorn@gamli.samtokin78.is. Hafir þú áhuga á að taka þátt í starfi nefndar eða starfshóps en komist ekki á fundinn, geturðu sent póst á skrifstofa@gamli.samtokin78.is. Dagskrá fundarins 20:00 Starfsáætlun stjórnar og trúnaðarráðs – kynning og umræður 20:30 Nefndir og starfshópar kynnt, áhugasöm geta skráð sig í hópa 20:45 Umræður í nefndum og starfshópum Nefndir og starfshópar Afmælisnefnd Afmælisnefndinni er ætla að sjá um skipulag og framkvæmd 40 ára afmælishátíðar Samtakanna ‘78, sem fram fer á árinu 2018. Nefndin mun vinna náið með öðrum (sérhæfðum) nefndum og starfshópum. Rit- og vefnefnd Nefndinni er ætlað að hafa umsjá með útgáfumálum og uppfærslu á útgefnu efni, bæði á prenti og á vefnum. Hún ber einnig ábyrgð á að yfirfara aðgengileika upplýsinga um félagið út frá fötlun, tungumálakunnáttu o.fl. Skemmtinefnd Nefndin skipuleggur stærri viðburði eins og jólabingó, ball og atriði í gleðigöngu. Starfshópur um kynlíf, kynfrelsi og BDSM Þessi starfshópur hóf göngu sína sumarið 2016. Tvö fyrirliggjandi verkefni eru á könnu hans: – Kynheilsuátak í samstarfi við HIV Ísland og fleiri – Gerð kynfræðsluefnis í samvinnu við fræðslustýru, rit- og vefnefnd, önnur félög og utanaðkomandi fagaðila Starfshópur um að eldast hinsegin Starfshópurinn hóf göngu sína haustið 2016 og mun starfa að markmiðum samtakanna í málaflokknum, sem samþykkt voru á aðalfundi 2017. Starfshópur hinsegin fólks af erlendum uppruna Undirbúningur að slíkum starfshópi er kominn af stað hjá Andrés Pelaez og Todd Kulczyk. Stuðningshópur fyrir hælisleitendur og flóttafólk Margir hafa lýst áhuga á að taka þátt í slíku starfi en skipulag og utanumhald hefur vantað. Lista- og menningarráð Sérstaklega var kallað eftir stofnun slíks ráðs á Samtakamættinum 2017.