Stjórn og starfsfólk Samtakanna ‘78 vill þakka öllum kærlega fyrir sem lögðu hönd á plóg í aðgerðaviku okkar vegna hörmunganna sem eru í gangi í Tsjetsjeníu. Bæði þeim sem stóðu vaktina í keðjustöðunni, mættu á mótmælin á föstudaginn eða tóku þátt á annan hátt. Mótmælin heppnuðust mjög vel og vöktu mikla athygli fjölmiðla. Fyrir þau sem komust ekki á föstudaginn má sjá ræðu Maríu Helgu Guðmundsdóttur, formanns Samtakanna ‘78, hér. Fleiri myndir úr mótmælunum má nálgast hér. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur tekið málinu alvarlega og má sjá viðtal við hann um það hér. Við hvetjum ráðherra og Alþingi til að halda þessu máli á lofti og krefjast þess við rússnesk yfirvöld að rannsókn á ofsóknum gegn sam- og tvíkynhneigðum karlmönnum í Tsjetsjeníu fari fram og þeir ábyrgu verði dregnir til ábyrgðar. Einnig hefur Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sýnt málinu áhuga og fundaði hann með Maríu Helgu formanni Samtakanna og Kitty Anderson, alþjóðafulltrúa í stjórn. Alþjóðlegur þrýstingur ber árangur – það segir sagan okkur, og einnig hefur Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, samþykkt að skoða þetta mál. Það er þó ekki nóg og mikilvægt er að þrýstingi verði haldið áfram. Við viljum hvetja þau sem vettlingi geta valdið til að leggja sitt af mörkum: til dæmis með því að skrifa undir undirskriftalista eða styrkja samtök sem aðstoða þolendur ofsóknanna í Tsjetsjeníu. Það er til dæmis hægt að gera hér. Einnig má hafa samband beint við rússneska sendiráðið hér á landi. Til dæmis er hægt að prenta út þetta bréf frá Samtökunum og skrifa undir. Við þökkum stuðninginn og höldum baráttunni áfram!