Félagsfundur 28. febrúar, 2017 Félagsfundur þriðjudaginn 28. febrúar 2017 María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna ‘78, setur fundinn kl. 17:54. Formaður staðfestir lögmæti fundarins. Boðað var á fundinn með nægilegum fyrirvara og á hann eru mættir eru 15 fullgildir félagar Samtakanna ‘78. Dagskrá Kynning á tillögum lagabreytinganefndar. Lagabreytinganefnd hefur starfað síðan í haust og hefur verið að vinna að tillögum að lagabreytingum sem verða lagðar fyrir aðalfund félagsins 18.mars 2017. Erindi frá Íslenskri erfðagreiningu. Samtökunum barst beiðni frá Íslenskri erfðagreiningu um samstarf við rannsókn á erfðafræðilegum grundvelli kynhneigðar. Kosningar um erindið munu fara fram á aðalfundi. Önnur mál. 1. Kynning á tillögum lagabreytingarnefndar Álfur Birkir (varaformaður S‘78 og meðlimur lagabreytingarnefndar) kynnir tillögur lagabreytingarnefndar að lagabreytingum. Farið er yfir lagabreytingatillögurnar þétt og skipulega. Kynntar eru lagabreytingartillögurnar og þær rökræddar með fundargestum. Minniháttar málfarsvillur eru leiðréttar. Fyrir liggja tillögur að breytingum á stórum hluta laga Samtakanna. Meðal annars stendur til að leggja fram tillögu að breytingu á lögum um hlutverk trúnaðarráðs, hvernig skal kosið og skipað í stjórn félagsins og hvernig félagið skilgreinir hugtakið ‘hinsegin’. Fram fóru rökræður um m.a. kosti og galla eftirfarandi tillagna: – Opnun fyrir framboð á aðalfundi – Atkvæðisrétt eða tillögurétt fyrir fulltrúa í hagsmunaráði/trúnaðarráðsfulltrúa hagsmunafélaga Lög Samtakanna ‘78 má nálgast hér. Tillögur lagabreytingarnefndar má nálgast hér. 2. Erindi frá Íslenskri erfðagreiningu María formaður kynnir erindið frá Íslenskri erfðagreiningu. Fyrir rúmlega ári hafði Íslensk erfðagreining fyrst samband við Samtökin ‘78 varðandi samstarf í rannsókn á erfðafræðilegum grundvelli kynhneigðar. ÍE leitast eftir samstarfi við ‘78 við þessa rannsókn. Félagið hefur ekki fengið ítarlegar upplýsingar um rannsóknina eða hvernig ÍE hafi hugsað að hún færi fram. Skyldi félagið kjósa að ráðast í þetta samstarfi þá gæti ‘78 fengið aðkomu að því hvernig rannsóknin yrði sett upp, hvers konar spurningar yrðu lagðar fyrir þáttakendur í rannsókninni, hvernig unnið yrði úr gögnunum og hvernig niðurstöður rannsóknarinnar yrðu kynntar. ÍE óskar um leið eftir því að félagið aðstoði þau í að safna þátttakendum í rannsóknina. Ljóst er að Samtökin ‘78 búa yfir einu stærsta tengslaneti hinsegin fólks á Íslandi og því gæti þáttaka félagsins í samstarfinu skipt sköpum fyrir gengi rannsóknarinnar. Félagsmaður ber upp spurningu varðandi mögulega greiðslu til Samtakanna í tengslum við þetta verkefni. María formaður segir það ekki vera eðlilegt að félagasamtök líkt og ‘78 taki þátt í svona samstarfi með einkafyrirtæki án þess að fá greitt fyrir sína vinnu. Rætt er um hugsanlegar afleiðingar fyrir hinsegin samfélagið, bæði á Íslandi og erlendis, af niðurstöðum slíkra rannsókna. Fundargestir hafa áhyggjur af því að slíkar niðurstöður gætu orðið vatn á myllu þeirra sem beita hinsegin fólk útskúfun og ofbeldi, sama hvers eðlis þær væru. Einnig minnast þó nokkrir fundargestir á eðlismun á hlutverki vísindamanna og félagasamtaka og telja að hlutverk Samtakanna ‘78 sem mannréttindasamtaka fari ekki saman við samstarf af þessu tagi. Mikið er um umræður varðandi erindið og klárt að hitamál er um að ræða. Almennur samhljómur meðal fundargesta um rannsóknina var að það væri ekki hlutverk S’78 að taka þátt í rannsókn sem þessari þar sem að hugsanlegar afleiðingar hennar eru óljósar og gætu stefnt fólki í hinsegin samfélaginu, bæði hér á landi og utan, í hættu. 3. Önnur mál Önnur mál eru engin. Formaður slítur fundi kl. 19:21.