Samtökin ´78 telja það mikilvægan áfanga að gefnar hafi verið út ákærur á hendur átta einstaklingum fyrir meinta haturorðræðu í garð hinsegin fólks. Upphaf málanna má rekja til vorsins 2015 en Samtökin ‘78 kærðu þá 10 manns fyrir meiðandi og hatursfulla orðræðu í garð hinsegin fólks. Tvö málanna eru utan höfuðborgarsvæðisins og er niðurstöðu í þeim málum enn beðið. Um leið og Samtökin ‘78 styðja málfrelsi, enda er það hornsteinn réttindabaráttu minnihlutahópa, lýsa þau einnig yfir stuðningi við takmarkanir á því að fólk geti opinberlega ráðist að minnihlutahópum með meiðandi eða jafnvel ógnandi orðræðu. Slíkar árásir grafa undan jafnrétti, virðingu og mannréttindum og geta, eins og dæmin sanna, ýtt undir ofbeldi. Það markar tímamót í mannréttindabaráttu hérlendis að ákært sé á grundvelli 233. gr. a í almennum hengningarlögum sem mælir fyrir um refsinæmi þess að viðhafa eða dreifa meiðandi eða ógnandi orðræðu í garð minnihlutahópa eða einstaklingum sem tilheyra minnihlutahópi á opinberum vettvangi. Við teljum það jákvæða þróun fyrir mannréttindaumræðu hérlendis að þessi mál séu komin svo langt sem raun ber vitni.