7. Stjórnarfundur 24. október, 2016 Stjórn Samtakanna ‘78 Starfsárið 2016 – 2017 07. fundur Þann 24. október 2016 var haldinn fundur í húsnæði Samtakanna Suðurgötu 3 klukkan 20:00. Fundinn sátu: María Helga Guðmundsdóttir, formaður – MHG. Júlía Margrét Einarsdóttir, ritari – JME. Benedikt Traustason, gjaldkeri – BT. Álfur Birkir Bjarnason, meðstjórnandi – ÁBB Guðmunda Smári Veigarsdóttir, meðstjórnand – GSV Einnig sátu fundinn Sigurður Júlíus Guðmundsson – SJG og Anna Eir Guðfinnudóttir AEG, meðlimir í starfshóp um BDSM, almennt kynfrelsi og kynheilbrigði; Auður Magndís Auðardóttir, framkvæmdastýra – AMA og Sólveig Rós fræðslustýra og áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs – SR. Forföll boðuðu: Unnsteinn Jóhanesson varaformaður og Kitty Anderson alþjóðafulltrúi. Áskorun vegna HIV-lyfs Samtökunum hefur borist áskorun um að félagið beiti sig fyrir því að fólk í áhættuhópi geti fengið fyrirbyggjandi lyf gegn HIVsmiti sér að kostnaðarlausu. Lyfið kallast PrEP og stendur fólki í áhættuhóp til boða í Noregi. Í þeim áhættuhópi telst fólk sem notar sprautubúnað, menn sem sofa hjá mönnum, fólk sem vinnur í heilbrigðisgeiranum, fólk í kynlífsvinnu og fleiri. Samþykkt var: – Aukið samstarf við HIV Ísland – Kynheilsuátak í samvinnu við starfshóp um BDSM, kynfrelsi og kynheilbrigði, auk annarra félaga sem láta sig málið varða – Endurskoðun á kynfræðslubæklingi í samstarfi við Q-félagið; leitað eftir samstarfi við BDSM á Íslandi, Trans Ísland, Intersex Ísland og KynÍs – Liður í átakinu: smokkar, túrvörur, latexhanskar, sleipiefni og aðrar kynheilsuvörur auk túrvarnings verði á boðstólum í félaginu gegn frjálsum framlögum – SR reynir að tryggja félagsfólki afslátt af álfabikarnum Áheyrnarfulltrúi: SJG segir frá því að hann og SR hafi rætt hvort hún eigi að bakka út sem áheyrnafulltrúi eða fara í frí vegna starfs. Lagt er til að umræðan um málið verði tekin á trúnaðarráðsfundi til að byrja með. Sigurður Júlíus og Anna Eir ganga af fundi. Ráðning framkvæmdastjóra: Ragnheiður Stefánsdóttir mannauðsráðgjafi er að vinna í auglýsingu á starfinu og MHG leggur til að stjórnarliðar lesi hana stuttlega. Fagurfræði auglýsingarinnar er rædd, grafík, letur o.s.frv. Lagt er til að hafa vefauglýsinguna sem skorinorðasta og að strax verði vísað á vefslóð með frekari upplýsingum. ÁBB mun vinna áfram í grafík, MHG mun vinna í innihaldi og áætlað er að auglýsingin verði tilbúin fyrir fimmtudag. Húsnæðismál: Stjórn samþykkir að selja tvö gömul sjónvörp á Bland.is þar sem engin not finnast fyrir þau. Áður hefur verið samþykkt að mála píanóið bleikt og færa það fram í rýmið. MHG mun ýta því úr vör með því að hafa samband við Sólver, sem tók það verkefni að sér. Hinsegin dagar hafa beðið um að fá að setja skilrúm í geymsluna sem er samþykkt. Hrekkjavökuball: Á döfinni er ungliðaball í samráði við Haffa Haff. Samþykkt er að Samtökin veiti um 30.000 kr. í þennan viðburð. Hann er á dagskrá 1. nóvember. Ungmennahópur á Selfossi: Rætt er um ungmennahópinn sem starfar nú á Selfossi á vegum Pakkhússins. GSV býður sig fram til að fara fram fyrir hönd stjórnar og veita ráðgjöf um hinsegin málefni og það er samþykkt. Verkefni framkvæmdastýru: Vinnutilhögun framkvæmdastýru og fræðslustýru á komandi mánuðum er rædd. 16 daga átakið: 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi er að fara í gang mánaðamótin nóvember og desember. Auður sat fund þar sem ákveðið var að grein kæmi frá Samtökunum um efnið. Gjaldkeramál: Gjaldkeramál standa þannig að engar kröfur standa ógreiddar nema Netbókhald. Í ljósi þess að það er ekki í notkun leggur AMA til að því verði sagt upp. Gerða er komin með aðgang að Netbókhaldi. Kýpur: MHG segir frá ferð sinni til Kýpur þar sem hún sótti ILGA Europe ráðstefnuna liðna helgi. Hún sótti vinnustofur um hælisleitendur, trans krakka, herferðir, eldra hinsegin fólk og loks tvöföld vinnustofa um einstaklings heilsu aktívista og heilsu félaga sem byggja á aktívisma og sjálfboðavinnu. MHG telur að við getum gert ýmislegt til að bæta stofnanastrúktúrinn og hún leggur til að við setjum skilgreindan vinnutíma og skilgreindan ekkivinnutíma. Góðu fréttirnar eru að við höfum öðlast góð tengsl út á við en María er komin í samband við ýmsa aðila sem geta miðlað reynslu. KA er með hugmyndir og þreifingar á sinni vinnu. KA hefur áhuga á samvinnuverkefni í gegnum EEA-styrkjakerfið við Svartfjallaland og mögulega Pólland (fer eftir framvindu ríkisvalda þar). Mun leitast við að hefja samtöl við hlutaðeigandi félög fyrir lok árs. Fundi slitið 22:21 Fundargerð ritaði Júlía Margrét Einarsdóttir