2. Stjórnarfundur 22. september, 2016 Stjórn Samtakanna ‘78 Starfsárið 2016 – 2017 02. fundur Fimmtudaginn 22. september 2016 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78 í húsnæði samtakanna að Suðurgötu 3 í Reykjavík. Fundinn sátu: María Helga Guðmundsdóttir formaður, Unnsteinn Jóhannsson varaformaður, Benedikt Traustason gjaldkeri og Guðmunda Smári Veigarsdóttir meðstjórnandi. Einnig sat fundinn Sólveig Rós áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs. Forföll boðuðu: Júlía Margrét Einarsdóttir ritari, Kitty Anderson alþjóðafulltrúi, Álfur Birkir Bjarnason meðstjórnandi. Fundur settur 10:43. 1. Mannauðsmál Þessum lið var frestað. 2. Vikan sem var – vikan framundan Vikan sem var:María og Guðmunda áttu góðan fund með umsjónarmönnum húsnæðisins, Fríðu Agnarsdóttur og Huldu Ólafsdóttur Klein. Guðmunda og Fríða munu í sameiningu skipuleggja betrumbætur í eldhúsi og munu umgengnisreglur verða skýrðar. Sjá nánari skýringar neðar í fundargerð. María og Unnsteinn hittust til að gera fundarboð vegna félagsfundar, fóru yfir atriði tengd siða- og starfsreglum. Er markmið þessara reglna að auka gagnsæi og traust innan félagsins. Auk þess lögðu þau drög að aðgerðaáætlun eða verkáætlun stjórnar fram að næsta aðalfundi. Trúnaðarráðssfundur fór fram á þriðjudag en þar var kosið um embætti. Áheyrnarfulltrúi í stjórn er Sólveig Rós en varaáheyrnarfulltrúi Sigurður Júlíus. Formaður trúnaðarráðs er Alda Villiljós og varaformaður Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir. Guðmunda og Sólveig Rós fóru á námskeið á vegum Skóla- og frístundasviðs fyrir starfsmenn félagsmiðstöðva vegna ungliðastarfsins. Námskeiðið var gagnlegt fyrir sjálfboðaliða sem sjá um ungliðastarfið. Vikan framundan: Unnsteinn og María Helga eiga fund með jafningjafræðurum síðar í dag. Á morgun munu fulltrúar stjórn eiga fund með ráðgjöfum samtakanna og ræða um næstu mánuði. Á mánudaginn fer María Helga í viðtal á Hringbraut. Stjórn mun hittist á mánudaginn næsta. Guðmunda ætlar að reyna að hitta Fríðu í næstu viku vegna eldhúsmála. 3. Fjölmiðlar – viðtal við GayIceland María Helga stefnir á að fara í viðtal við GayIceland í næstu viku eftir fund stjórnar á mánudag. Ritstjóri hefur óskað eftir kynningu á aðgerðaáætlun stjórnar næstu mánaða. Verður viðtalið birt eftir félagsfund sem boðað hefur verið til 6. október. 4. Sala regnbogavarnings Skrifstofu berast reglulega fyrirspurnir um hvar hægt sé að nálgast regnbogavarning, þar sem erfitt getur verið að kaupa slíkt þegar Hinsegin dagar standa ekki yfir. Var ákveðið að stjórn myndi leita til stjórnar Hinsegin daga um hvort ekki væri hægt að starfrækja lítið kaupfélag á Suðurgötu þar sem fólk gæti keypt regnbogafána o.þ.h. á opnunartíma skrifstofu. 5. Húsnæðismál– fundur með umsjónarmönnum húsnæðis Á fundi með umsjónarmönnum húsnæðisins að Suðurgötu 3 var farið yfir stefnu varðandi útleigu. Ákveðið var að semja þyrfti sérstakar umgengnisreglur, annars vegar vegna útleigu húsnæðis og hins vegar vegna umgengni í eldhúsi. Munu leigutakar þurfa að kynna sér reglurnar og var rætt um að ríkari kröfur yrðu gerðar til þeirra varðandi umgengni. Var það mat umsjónarmanna að það vantaði skýrari stefnu og verkaskiptingu vegna útleigu. Kom sú hugmynd upp að valinn yrði sérstakur umsjónaraðili útleigu sem hefði yfirsýn yfir alla viðburði í salnum og myndi þá líka sjá um þrif á honum. Drög að fyrirkomulagi jólabingós var einnig rætt. 6. Bókhald; yfirferð á gömlum ársreikningum Stjórn hefur sent bókara uppkast að verklagsreglum. Markmið reglnanna er að skýra samskipti og skyldur bókara og stjórnar. Stefnt er á að gjaldkeri, framkvæmdastýra og formaður eða varaformaður hitti bókara, fari yfir drögin, hvaða kröfur hann geri til stjórnar og hvernig best er að haga samskiptum félagsins við bókara. Gjaldkeri mun taka það að sér að fara yfir ársreikninga 2013-2015 og senda fyrirspurnir á skoðunarmenn reikninga þurfi nánari skýringar. 7. Fundargerð síðasta fundar Þessum lið var frestað vegna forfalla ritara. 8. Hinsegin hópar á Selfossi og í Keflavík Guðmunda hefur verið í samskiptum við einstaklinga í Reykjanesbæ og á Selfossi um að stofna hinsegin hópa í félagsmiðstöðvunum þar. Mun Guðmunda halda áfram að leiða það verkefni. Mögulega verður hægt að fá einhverja ferðastyrki frá forvarnanefnd Árborgar til þess að halda fræðslu í Pakkhúsinu, félagsmiðstöðinni á Selfossi. Erindi verður þó að hafa borist forvarnarnefdinni eigi síðar en 11. október eigi nefndin að fjalla um möguleikann á slíkum styrk. Guðmunda mun hafa samband við 88húsið í Keflavík varðandi næstu skref í Reykjanesbæ. Stefnt er að að Guðmunda, Hrefna og Auður hittist í næstu eða þarnæstu viku og fari yfir hvernig leggja eigi upp þetta starf. Fyrir hvaða aldurhópa það eigi að vera, hver aðkoma Samtakanna ‘78 verði að slíku starfi, o.s.frv. Stjórn fagnar sérstaklega auknu hinsegin starf sé að eflast á landsbyggðinni og vill gjarnan aðstoða sjálfsprottna hópa við að koma slíku á fót. 9. Starf vegna 18-25 ára hóps Ákveðið var að Guðmunda, Sólveig Rós og María Helga myndu hittast með Q-félaginu um hvernig best væri að skipuleggja hópa fyrir 18-25 ára. Þar sem flestir félagsmenn Q-félagsins eru á þessum aldri er eðlilegt að Samtökin ræði við stjórn Q-félagsins um hvernig best sé að hátta næstu skrefum og mögulega auknu samstarfi félaganna á þessu sviði. 10. BDSM-unglingar og ungliðastarf Samtakanna ’78 Fyrirspurn barst um hvort að beina ætti BDSM-hneigðum einstaklingum undir 18 ára í ungliðastarf Samtakanna ’78. Ákveðið var að taka þessa fyrirspurn upp á fundi með ráðgjöfum Samtakanna og að ræða þyrfti þetta við umsjónarmenn ungliðastarfsins. Sýn stjórnar er að allir geti komið á fundi ungliðahópsins en ekki sé rétt að auglýsa sérstaklega ungliðastarfið fyrir unga BDSM-hneigða að svo stöddu. Vanda þurfi til verka verði þetta skref tekið og undirbúa þurfi sjálfboðaliða, umsjónarmenn og þá sem sækja starfið. Stjórn er ekki tilbúin til þess að BDSM á Íslandi auglýsi ungliðastarfið sérstaklega á heimasíðunni fyrir BDSM-hneigða undir 18 ára aldri að svo stöddu. Stjórn vill þó ítreka að ungliðastarfið er opið öllum. 11. Samstarf við SAFT og KynÍS Unnsteinn bar það upp á fundinum hvort að Samtökin ’78 ætti að leita til SAFT (vakningarátaks um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi) varðandi samstarf. Öryggi á netinu, þá s.í.l. ungmenna, er mál sem Samtökin ættu mögulega að beina sjónum sínum frekar að. Ungt hinsegin fólk er líklegt til þess að leita sér upplýsinga þar og því þarf að gæta þess að ungir einstaklingar séu meðvitaðir um þær hættur sem þar eru. Er þetta langtímaverkefni sem þarf að skoða nánar. Guðmunda spurði í framhaldi af þeirru umræðu hvort mætti hvort Kynís – Kynfræðifélag Íslands mætti halda fyrirlestur á Suðurgötu með yfirskriftinni ,,kynfæri og kynlíf“. Fyirlesturinn yrði haldinn þann 12. október í tengslum við Sexdaga sem Kynís stendur fyrir. Stjórn telur því ekkert til fyrirstöðu að fyrirlesturinn verði haldinn þar. 11. Halloween-ball ungliða Haffi Haff hafði samband við Guðmundu en hann vill halda ungmennaball í Frostaskjóli fyrir ungliðana. Seinasta ball gekk vel og verður erindið tekið fyrir á fundinum með Hrefnu. 12. Díalóg við samtök múslima á Íslandi Sú hugmynd að hefja samtal við samtök múslima á Íslandi um málefni hinsegin fólks bar á góma. Sú umræða þróaðist fljótt út í mögleikan á að halda málþing um hatursorðræðu sem á sér stað í garð þeirra hópa sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hægt væri að vinna verkefnið í samstarfi við Tabú, Öryrkjabandalagið og fleiri samtök. Fundi slitið kl. 11:33 Fundargerð ritaði Benedikt Traustason.