Samtökin ´78 sendu í dag frá sér umsögn vegna tillögu af vefnum Betri Reykjavík um að komið verði upp kynhlutlausum salernum og búningsaðstöðu á opinberum stöðum Reykjavíkurborgar. Við fögnum þeirri tillögu heilshugar eins og sjá má á meðfylgjandi umsögn. Reykjavík 29. apríl 2016 Samtökunum ´78 barst til umsagnar þann 20. mars sl. hugmynd af vefnum Betri Reykjavík sem snýr að því að kynlausum salernum og búningsaðstöðu verði komið upp á opinberum stöðum í Reykjavík. Við umsögn þessa er gert ráð fyrir að til opinberra staða teljist m.a. skólar, frístundamiðstöðvar og sundlaugar. Skilgreiningar Þegar rætt er um trans fólk í umsögn þessari ber að hafa í huga að sá hópur er fjölbreyttur og ólíkur innbyrðis. Sumt trans fólk getur og vill notast við þá búnings- og salernisaðstöðu sem hæfir þeirra kyni þ.e.a.s. körlum eða konum. Annað trans fólk kýs að gera það ekki vegna óþæginda eða vegna áreitni sem það á á hættu að verða fyrir eða vegna þess að það samræmist ekki kynvitund þeirra. Hluti hópsins er kynsegin, sumsé að kyn þeirra fellur ekki að flokkunum tveimur, kona eða karl. Hluti hópsins eru konur eða karlar en tjá kyn sitt á óhefðbundinn hátt, eru t.d. með líkama sem í menningu okkar samræmast ekki kyni þeirra eða eru með óhefðbundna kyntjáningu á annan hátt. Þá fer hópur trans barna og ungmenna ört vaxandi hérlendis. Þau hafa ekki rétt á að breyta kyni eða nafni sínu í þjóðskrá. Einnig hafa þau ekki kost á skurðaðgerðum til að samræma líkama sinn og kynvitund. Þeirra kyntjáning er því líklega óhefðbundin á einhvern hátt. Sundlaugar Samtökin ´78 taka heilshugar undir þá röksemdafærslu sem fram kemur með hugmyndinni. Árlega fáum við fjölda fyrirspurna bæði frá íslensku fólki og ferðamönnum vegna sundstaða hérlendis og hvernig aðstaðan er fyrir fólk sem ekki fellur inn í annan flokkinn af þeim tveimur sem tvíhyggja kyns gerir almennt ráð fyrir. Svör við slíkum fyrirspurnum hafa verið nokkrum vandkvæðum bundin þar sem það er mjög misjafnt eftir sundstöðum hvernig tekið er á slíku og að auki engin fræðsla til starfsfólks sundstaða um aðstæður trans fólks og því hætta á að fólk muni þurfa í þaula að útskýra sig og sínar aðstæður. Það væri til verulegra hagsbóta að geta sagt með vissu að á öllum sundstöðum borgarinnar séu klefar sem henti fólki sem ekki fellur inn í tvíhyggju kyns og að það sé auðsótt mál að fá að nota þá án frekar útskýringa eða málalenginga. Ekki þarf að fjölyrða um þá heilsufarsbót sem sundiðkun er. Trans fólk er í aukinni hættu á ýmsum heilsufarskvillum s.s. þunglyndi og kvíða. Það að aðgengi þeirra að sundstöðum sé skert getur því aukið enn á þennan vanda. Þá má einnig nefna að mikil aukning er nú á fjölda trans barna og unglinga en sú þróun á sér stað um öll vesturlönd um þessar mundir og stafar af aukinni umræðu og auknum réttindum trans fólks í þessum löndum. Trans börn og ungmenni, eins og önnur börn og ungmenni, eru skólaskyld og meðal annars skyld til að taka þátt í sundkennslu. Það að ekki séu til klefar við hæfi fyrir hluta þessa hóps en að hann sé á sama tíma skyldaður til að taka þátt í sundi er því algjörlega óviðunandi. Skólar og frístundamiðstöðvar Í kafla 6.3.1 í mannréttindastefnu borgarinnar segir: “Allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla taki mið af því að þátttakendur geti verið samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, transgender eða gagnkynhneigðir”. Á meðan ekki eru til klósett og búningsklefar í skólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar sem henta trans nemendum er eftirfylgd á þessu ákvæði verulega ábótavant. Líta verður á skyldu borgarinnar hvað varðar að gera búnings og klósettaðstöðu í skólum sérstaklega ríka vegna skólaskyldu sem ríkir í landinu. Reykjavíkurborg sem vinnuveitandi Reykjavíkurborg er einn stærsti vinnuveitandi landsins og hefur markað sér þá stefnu að vera í farabroddi þegar kemur að mannréttindum starfsmanna sinna. Færa má rök fyrir því að sem vinnuveitanda beri borginni skylda til að sjá starfsmönnum fyrir salernis- og búningsaðstöðu við hæfi. Á meðan aðstaðan á vinnustöðunum einskorðast við tvö kyn er hluti fólks útilokaður og þeim gert mjög erfitt um vik að starfa hjá borginni. Það er ósk okkar að tillagan um kynhlutlaus salerni og búningsaðstöðu hljóti brautargengi sem fyrst. Virðingarfyllst, Auður Magndís Auðardóttir Framkvæmdastýra Samtakanna ´78