Stjórn Samtakanna ´78 sem kosin var á aðalfundi 2015, með þeim síðari breytingum sem á henni urðu starfsárið 2015-16, boðar hér með til félagsfundar þann 9. apríl nk. kl. 14:00 að Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík. Húsið opnar kl. 13:30. Er þetta gert í ljósi þess að aðalfundur sem fram fór þann 5. mars sl. hefur verið véfengdur á grundvelli ólögmætrar boðunar. Komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að þar sem að félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum Samtakanna ’78 á milli aðalfunda, þá sé það í höndum félagsfundar að taka ákvörðun um næstu skref, stjórnin hafi ekki vald til þess. Því mun ákvörðun um næstu skref liggja hjá honum. Á félagsfundinum yrði fyrst kosið á milli þeirra tveggja leiða sem stjórn telur færar í stöðunni. Þessar tvær leiðir eru hér nefndar a og b: a. Kosið verði um það sem fram fór á aðalfundinum 5. mars sl., lið fyrir lið í leynilegri kosningu, þannig: i. Staðfesting eða synjun áritðara reikninga fyrra árs. ii. Staðfesting eða synjun kosningar aðalfundar til stjórnar. iii. Staðfesting eða synjun kosningar aðalfundar til trúnaðarráðs. iv. Staðfesting eða synjun kosningar til skoðunarmanna reikninga. v. Staðfesting eða synjun á kosningu BDSM á Íslandi sem aðildarfélags Samtakanna ´78 vi. Staðfesting eða synjun félagsfundar á kosningu HIN Hinsegin Norðurland sem aðildarfélags Samtakanna ´78 b. Boðað verði til aukaaðalfundar þar sem hefðbundin aðalfundarstörf yrðu endurtekin og kosið um aðild BDSM á Íslandi og HIN – Hinsegin Norðurland að samtökunum.. Verði möguleiki a fyrir valinu mun leynileg kosning um liði a i-vi fara fram strax í kjölfarið. Verði möguleiki b fyrir valinu verður félagsfundinum slitið þegar í stað og mun stjórn félagsins annast boðun aukaaðalfundar í umboði félagsfundar. Hvorki verður boðið upp á utankjörfundaratkvæðagreiðslu né að greidd séu atkvæði fyrir aðra skv. umboði þeirra þar sem engin lagastoð er fyrir slíku í lögum félagsins. Rétt til setu og atkvæðisrétt hafa skráðir félagar sem greitt hafa félagsgjald fyrir árið 2016. Aðgengi fyrir fólk með hreyfihömlun til staðar. Fundarboð þetta er unnið í samvinnu þeirrar stjórnar sem kosin var 2015 og þeirrar sem kosin var á aðalfundi 2016. Þessi leið er niðurstaða ítarlegrar vinnu stjórna sem hafa lagt sig fram um að hlusta á ólík sjónamið í málinu. Með þessum hætti vonumst við til að komið sé til móts við sem flest þeirra og að sátt skapist í framhaldinu um störf félagsins og þá niðurstöðu sem fæst. Umræðufundur 7. apríl Við vekjum einnig athygli á því að fimmtudaginn 7. apríl kl. 20:00 fer fram fundur þar sem rædd verða: Aðildarumsókn BDSM á Íslandi að Samtökunum ´78. Staða og stefna Samtakanna ‘78 í ljósi þróunar félagsins undanfarin ár, hugtaksins ,,hinsegin”, alþjóðlegra strauma og stefna, og ólíkra skoðana á hugmyndafræðilegu inntaki félagsins og uppbyggingu. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Samtakanna ‘78 á Suðurgötu 3 og hvetjum við alla til að mæta. Fundargerð umræðufundar sem haldinn var 10. mars Að endingu viljum við koma því á framfæri að fundargerð frá umræðufundi sem haldinn var þann 10. mars sl. er væntanleg á heimasíðu félagsins. Hægt er að óska eftir nafnleynd í fundargerðinni. Þau sem óska eftir nafnleynd og hafa ekki komið þeim óskum til fundarritara nú þegar eru beðin um að hafa samband við skrifstofa@gamli.samtokin78.is fyrir kl. 10 þann 21. mars. Með góðri kveðjur, Stjórnir 2015 og 2016.