Fréttir

Yfirlýsing stjórnar vegna aðildar BDSM á Íslandi

Yfirlýsing frá nýkjörinni stjórn Samtakanna ´78

Í kjölfar aðalfundar Samtakanna ‘78 laugardaginn 5. mars sl. og þeirrar miklu umræðu sem verið hefur síðan þá, og snýr aðallega að þeirri staðreynd að aðalfundur félagsins ákvað veita BDSM á Íslandi hagsmunaaðild að félaginu, vill nýkjörin stjórn félagsins upplýsa um gang mála, útskýra hvernig málin horfa við henni og koma nokkrum staðreyndum í málinu á hreint. Nýkjörin stjórn hefur enn ekki náð að hittast á sínum fyrsta stjórnarfundi og biðlar til félagsfólk og annarra um að veita henni örlítið svigrúm til að bregðast frekar við málinu en gert er í þessari yfirlýsingu.

Hér að aftan verður málið rakið ítarlega og reynt að gera grein fyrir öllum þáttum þess, hvað þessi ákvörðun þýðir og hvað hún þýði ekki. Stjórnin vill strax í upphafi hnykkja á helstu atriðum:

  • Ákvörðun um að veita BDSM á Íslandi aðild er hvorki tekin af núverandi né fyrrverandi stjórnum félagsins. Hún er tekin af æðstu stofnun þess, aðalfundi. Félagsfólkinu sjálfu.
  • Hvorki núverandi né fyrrverandi stjórnir félagsins hafa á nokkrum tímapunkti tekið afstöðu til málsins eða gefið út ákveðna línu þar um.
  • Boðað var til tveggja upplýsinga- og umræðufunda um málið eftir að umsókn BDSM á Íslandi lá fyrir. Fyrri fundurinn var haldinn 24. nóvember sl. og sá síðari þann 25. febrúar sl. Til beggja funda var boðað með útsendingu á póstlista félagsfólks, með góðum fyrirvara, og gafst fólki kostur á að senda inn nafnlausar spurningar. Þá var efnið m.a. einnig kynnt á vefsíðu og Facebooksíðu félagsins.
  • BDSM á Íslandi hefur ekki ‘sameinast’ Samtökunum ‘78. Samtökin ‘78 eru regnhlífarsamtök ólíkra hinsegin félaga, þótt félagsaðild hafi verið og sé enn bundin við einstaklingsaðild. BDSM á Íslandi verður nú í hópi 8 annarra félaga.
  • Samtökin ‘78 eru enn þau sömu. Það hefur ekkert breyst. Fræðslan er ekki breytt. Ráðgjöfin. Ungliðastarfið. Þetta starf verður áfram unnið undir sömu formerkjum, af sama fólki, og er allt jafnfrábært og faglegt og verið hefur. Það sem hefur breyst er að lítið samfélag fólks hefur leitað til félagsins og hefur fengið þar skjól, eins og margir aðrir hópar.
  • Ný stjórn mun boða félagsfund eins fljótt og auðið er, enda kappsmál stjórnar að viðhafa upplýsta og opna umræðu um þau álitamál sem brenna á fólki. Fimmtudaginn næstkomandi, 10. mars, verður opinn fundur að Suðurgötu 3 frá kl. 20-22 þar sem hægt verður að ræða málin við nýkjörna stjórn. Við hvetjum félagsfólk til að taka þátt í samtalinu um þennan þátt starfsins, sem og alla aðra þætti. Við hlökkum til samstarfsins.

 

Yfirlýsingin í heild

Á aðalfundi Samtakanna ´78 laugardaginn 5. mars sl. var kosið um umsóknir tveggja félaga um hagsmunaaðild að samtökunum. Annars vegar var um að ræða umsókn HIN – Hinsegin Norðurland sem er félag hinsegin fólks á Norðurlandi. Hins vegar var um að ræða umsókn BDSM á Íslandi. Umsóknir beggja félaga voru samþykktar og teljast þau bæði hagsmunafélög. 

Það er helst umsókn BDSM á Íslandi sem hefur vakið umtal og athygli og reynst umdeild meðal félagsfólks. Stjórn Samtakanna ´78 vill því með þessari yfirlýsingu útskýra það ferli sem átt hefur sér stað frá því að hugmyndir kviknuðu um félagsaðild BDSM á Íslandi.

Í grein 2.4. í lögum Samtakanna ´78 segir:

Félög tengd hagsmunum Samtakanna '78 geta óskað eftir því að tengjast félaginu. Stjórninni er skylt að leggja slíka umsókn fyrir aðalfund og geta hennar í fundarboði. Til samþykktar á slíkri aðild þarf einfaldan meirihluta atkvæða á aðalfundi. Hagsmunafélög skulu hafa eigin kennitölu, sjálfstæðan fjárhag og koma fram opinberlega í eigin nafni en ekki nafni Samtakanna '78.

Umsókn BDSM á Íslandi um hagsmunaaðild að Samtökunum ‘78
Þann 4. september 2015 barst stjórn formleg aðildarumsókn BDSM á Íslandi að Samtökunum ´78 en sú umsókn hafði þá einróma verið samþykkt á aukaaðalfundi þess félags. Umsóknin á sér nokkuð lengri aðdraganda en BDSM á Íslandi hafði áður óskað eftir samtali við samtökin og höfðu tvær fyrri stjórnir samtakanna hitt stjórn BDSM á Íslandi til að fá upplýsingar og fræðslu um hvað vekti fyrir félagsfólki BDSM á Íslandi með því að óska eftir aðild að Samtökunum ‘78. Félagið hafði áður verið í startholunum með að sækja um aðild að samtökunum en ákveðið að bíða með það þar til frekari kynning og umræða hefði farið fram á félaginu í hinsegin samfélaginu. Síðan þá hefur m.a. farið fram kynning á Hinsegin dögum 2015, ásamt talsverðri umræðu í fjölmiðlum, bæði í prenti, á vef og í ljósvakamiðlum.

Ólíkum skoðunum mætt með upplýsingum og samtali
Í samræmi við félagslög tók þáverandi stjórn samtakanna við umsókn BDSM á Íslandi. Stjórninni var fullljóst að umsóknin kynni að reynast umdeild meðal félagsfólk, að margt félagsfólk hefði spurningar um hvað möguleg aðild BDSM á Íslandi að samtökunum þýddi og hefði hugsanlega áhyggjur af ímynd félagsins.

Bæði þáverandi og núverandi stjórnir félagsins skilja vel þessar áhyggjur fólks og hafa reynt að koma til móts við félaga með því að efna til upplýsinga- og umræðufunda. Á hinn bóginn skal líka nefnt að töluverður hluti félagsfólks hefur stutt umsókn BDSM á Íslandi og talað fyrir henni.

Fordæmi erlendis frá
Um leið og þáverandi stjórn samtakanna stóð frammi fyrir þessu viðfangsefni leitaði hún í reynslubanka félaga sem mögulega þekktu til viðlíka fyrirkomulags og lagt var upp með í umsókn BDSM á Íslandi – sambúð hinsegin hreyfingar og BDSM félaga. Nærtækast þótti að leita til Noregs, enda á margan hátt sambærilegt Íslandi. Fordæmi eru fyrir því erlendis frá að BDSM félög séu hluti af hinsegin félögum, til dæmis í Noregi, og því ljóst að færa mætti rök fyrir því að hagsmunir þessara tveggja félaga væru tengd. Af því leiðir að stjórn var skylt að leggja umsóknina fyrir á aðalfundi félagsins. 

Hlutverk og skyldur stjórnar gagnvart félögum
Stjórn samtakanna var snemma ljóst að málið væri umdeilt og ákvað því að tala ekki fyrir neinni ákveðinni skoðun í málinu heldur stuðla að opnum og hreinskiptum umræðum meðal félagsfólks. Ákvörðunin var ekki og hefur aldrei verið stjórnarinnar enda frá upphafi ljóst að félagarnir sjálfir myndu útkljá þetta mál. Þáverandi, og núverandi stjórn, hafa báðar litið svo á að skylda þeirra við félagið væri fyrst og fremst fólgin í því að varðveita einingu þess – en um leið að tryggja að veigamiklar ákvarðanir væru teknar á grundvelli bestu upplýsinga, í lýðræðislegum ferlum, og af til þess bærum stofnunum. Í þessu tilfelli af æðstu stofnun félagsins, aðalfundinum. Félögunum sjálfum.
Stjórnin stóð vissulega frammi fyrir ákveðinni áskorun, í aðdraganda aðalfundar, á aðalfundinum sjálfum, og að aðalfundi loknum. Það er nefnilega ekki endilega gefið að þessi atriði sem að framan eru rakin fari alltaf saman. Það getur alltaf komið upp sú staða í félagsstarfi að hluti félaga, stór eða lítill, felli sig illa eða alls ekki við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga um mál á vettvangi félagsins. Við slíkar aðstæður getur einingu félagsins verið ógnað og stjórn þarf auðvitað að bregðast við því með upplýsingu og samtali.

Meðferð málsins í aðdraganda aðalfundar og á fundinum sjálfum
Nokkuð hefur verið gagnrýnt hvernig haldið hefur verið á umsókn BDSM Ísland gagnvart félögum, m.a. kynningu í aðraganda aðalfundar. Fráfarandi stjórn hefur þó reynt að upplýsa félagsfólk með sem ítarlegustum hætti um umsóknina og forsendur hennar. Skal því hér rakið hvernig málum var háttað:

  • Félagsfundur 24. nóvember
    Boðað var til félagsfundar þann 16. nóvember með útsendingu rafræns fréttabréfs með tölvupósti en rúmlega 700 félagar hafa skráð sig fyrir móttöku slíks fréttabréfs. Í fréttabréfinu var upplýst að umsókn um aðild BDSM Ísland að samtökunum hefði borist og yrði kynnt á félagsfundinum. Einnig var upplýst að umsóknin yrði tekin fyrir á komandi aðalfundi félagsins. Fundurinn var einnig auglýstur á heimasíðu félagsins og á Facebook síðu þess.
  • Í aðalfundarboði sem sent var á póstlista félagsins, birt á heimasíðu félagsins og á Facebook síðu kom fram að kosið yrði um aðild BDSM á Íslandi á fundinum. Var þetta ítrekað nokkrum sinnum í aðdraganda aðalfundarins.
  • Kynningarfundur 25. febrúar
    Boðað var til kynningarfundar þann 25. febrúar með útsendingu rafræns fréttabréfs með tölvupósti en eins og áður hefur komið fram nær pósturinn til rúmlega 700 félaga. Einnig var fundurinn kynntur vel á Facebook. Félagsfólki bauðst að senda inn nafnlausar fyrirspurnir til fundarins. Einnig var ítraleg fundagerð gerð opinber eftir fundinn.
  • Aðalfundur 5. mars (kosningar)
    Ljóst var að mikill áhugi væri fyrir aðalfundinum og brást kjörnefnd við með því að bjóða upp á utankjörfundaratkvæðagreiðslu daginn fyrir aðalfund og að auki að félagsfólk gæti gefið öðrum umboð til að kjósa í sínu nafni, annað hvort á aðalfundi eða á utankjörfundi. Þetta nýttu fjölmargir sér.

Með þessari tilkynningu vill stjórn opna samtal um það ferli sem hér hefur farið fram en ekki síst það ferli sem framundan er. Það er sameiginlegt verkefni stjórnar og félagsfólks að finna starfinu farveg á næstu misserum og árum. Við hvetjum félagsfólk okkar til að taka þátt í því samtali og hlökkum til samstarfsins.