Fréttir

Yfirlýsing frá kjörnefnd Samtakanna ’78

Aðalfundur Samtakanna '78 fór fram í gær, laugardaginn 5. mars 2016, og gekk framkvæmd kosninga vel. Við frekari úrvinnslu komu þó í ljós mistök sem gerð voru við tilkynningu úrslita og eru þau tilgreind hér:

i.

Í kosningu um hagsmunaaðild BDSM á Íslandi að Samtökunum '78 féllu atkvæði þannig að 47 greiddu atkvæði með og 40 á móti en ekki 37 með og 31 á móti líkt og tilkynnt var á aðalfundi. Ástæða þessa er sú að atkvæði greidd utan kjörfundar vantaði í þá niðurstöðu sem kjörnefnd kynnti. Þau breyta þó ekki niðurstöðu kosningarinnar eins og sjá má á þeim tölum sem hér birtast. 

 

ii.

Lög Samtakanna '78 kveða á um að aðalfundur kjósi tíu einstaklinga í trúnaðarráð. Við tilkynningu niðurstaðna voru lesin upp 12 nöfn í stað tíu. Réttkjörin í trúnaðarráð 2016-2017 eru:

 

  • Auður Emilsdóttir
  • Benedikt Traustason
  • Daníel Arnarsson
  • Hafsteinn Himinljómi Sverrisson
  • Kjartan Þór Ingason
  • María Helga Guðmundsdóttir
  • Óskar Steinn Ómarsson
  • Sigurður Þorri Gunnarsson
  • Sólveig Rós
  • Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir

 

Kjörnefnd biðst afsökunar á þessum mistökum og þeim óþægindum sem þau kunna að valda. Nýrri stjórn og trúnaðarráði er óskað alls hins besta á komandi starfsári.