Fréttir

Auður Magndís nýr framkvæmdastjóri

Eins og félagsfólki er kunnugt hafa staðið yfir skipulagsbreytingar hjá félaginu og auglýsti stjórn í júní lausa til umsóknar stöðu framkvæmdastjóra í fullu starfi. Alls bárust átta umsóknir um stöðuna frá fjölbreyttum hópi fólks og þökkum við umsækjendum kærlega fyrir góðar umsóknir og sýndan áhuga.

Eftir mat á umsóknum og viðtöl við þá umsækjendur sem helst komu til greina, m.a. út frá menntun og fyrri reynslu, var það einróma niðurstaða stjórnar að bjóða Auði Magndísi Auðardóttur stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Auður þáði boðið og gerum við ráð fyrir að hún hefji störf um mánaðamótin ágúst/september. Eins og fram kom í auglýsingu um starfið á sínum tíma verða verkefni Auðar fjölbreytt, en þeim má skipta niður í fjögur megin svið: daglegan rekstur, fjáröflun og eftirfylgni; upplýsingar og samskipti; hagsmunabaráttu; og fræðslustarf.

Auður Magndís Auðardóttir útskrifaðist árið 2007 með meistaragráðu í stjórnmála-félagsfræði frá London School of Economics með áherslu á kynjafræði, þ.á.m. kynverund. Þá hefur hún BA próf í félags- og kynjafræðum frá Háskóla Íslands og stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Auður hefur gegnt starfi verkefnastjóra Jafnréttisskóla Reykjavíkur frá 2013, þar sem hún sinnti m.a. jafnréttisráðgjöf til skóla og frístundamiðstöðva og tók þar einnig á málefnum hinsegin fólks. Í starfinu hefur hún m.a. haldið vinnustofur, útbúið kennsluverkefni og leiðbeiningar til kennara og starfsfólks. Auður starfaði hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands á árunum 2007-13 þar sem hún m.a. verkstýrði mörgum verkefnum, vann kostnaðaráætlanir og bar ábyrgð á gæðum verkefna.

Auður hefur góða reynslu af sjálfboðaliðastörfum, innan og utan félagsins, en hún sat m.a. í trúnaðarráði 2013-14 og í stjórn 2014-15. Á vettvangi félagsins hefur hún unnið ötullega að gerð verkefna og öflun fjármagns til þeirra. Má þar m.a. nefna útgáfuverkefni um Hugrakka riddarann sem líta mun dagsins ljós á næstunni, verkefnisstjórn og samningagerð vegna aðkomu S78 að móttöku kvótaflóttamanna, þátttöku í skipulagningu Samtakamáttarins 2013 og úrvinnslu niðurstaðna, og aðkomu að gerð þjónustulýsinga vegna ráðgjafar-, fræðslu- og ungliðastarfs félagsins sl. vetur sem félagið hefur lagt til grundvallar í samningaviðræðum um aukin fjárframlög.

Auður hefur yfirgripsmikla þekkingu á sögu, þróun og hugtökum hinsegin samfélagsins og hlaut nýverið ritlaunastyrk úr Þróunarsjóði námsgagna til ritunar Hinsegin handbókar, ásamt dr. Írisi Ellenberger, sem mun koma út árið 2016.

Við bjóðum Auði Magndísi hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til þess að halda áfram að efla og styrkja félagið í samstarfi við hana.