5. Stjórnarfundur

Stjórn Samtakanna ‘78

2014 – 2015

5. fundur

Ár 2014, fimmtudaginn 22. maí kl. 18.45 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78. Fundurinn var haldinn að Laugavegi 3 í Reykjavík og hann sátu Hilmar Magnússon formaður (HM), Kamilla Einarsdóttir ritari (KE), Svandís Anna Sigurðardóttir varaformaður (SAS), Gunnar Helgi Guðjónsson meðstjórnandi (GHG), Valgerður Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs (VJ), Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson gjaldkeri (VIV), Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir meðstjórnandi (AÞÓ)

Boðuð forföll: . Örn Danival Kristjánsson meðstjórnandi (ÖDK).  Auk stjórnar sat fundinn, Árni Grétar Jóhannsson (ÁGJ) framkvæmdarstjóri.

Dagskrá:

1.      Staða mála frá síðasta fundi

1.1    Almennt félagsstarf – Félagsstarf og viðburðahópur

1.2    Almennt félagsstarf – Stefnumótun S78 og Samtakamáttur

1.3    Almennt félagsstarf – Starfshópar/nefndir og fundarpunktar frá stefnumóti

1.4    Almennt félagsstarf – Starfshópur um málefni tvíkynhneigðra

 

1.5    Alþjóðamál – Úgandaverkefni

1.6    Alþjóðamál – Færeyjar og Vestnorrænt samstarf

1.7    Alþjóðamál – IDAHOBIT Malta

        1.8    Alþjóðamál – Rússneskir aðgerðasinnar í heimsókn 6. maí

1.9    Alþjóðamál – Aðild að TGEU, GLISA og félagsgjöld ILGA Europe o.fl.

 

1.10 Andlát – Sigþór Sigþórsson

 

      1.11 Fjármál og fjáröflun – Fjármál ungliða

 

         1.12 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðslubæklingur

        1.13 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Lögreglubæklingur

1.14 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Málefni intersexfólks

1.15 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðsla um fötlun til ráðgjafa

1.16    Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðslufundur í Ráðhúsi

 

1.17 Húsnæðismál – Suðurgata

 

1.18 Innflytjendur og hælisleitendur – Mál hælisleitanda X

 

1.19 Lýðheilsa og íþróttir – Lýðheilsuhópur og verkefnisstjórn um HIV tékk

 

1.20 Menning og viðburðir – Reykjavík Pride – Innlegg í dagskrárrit

        1.21 Menning og viðburðir – Þátttaka S78 í Reykjavík Pride

1.22 Menning og viðburðir – IDAHOBIT 17. maí – Dagskrá og stjórnmálaumræður

1.23 Menning og viðburðir – Reykjavíkurmaraþon á Menningarnótt

1.24    Menning og viðburðir – Fjölmenningardagur í Reykjavík laugard. 10. maí

 

1.25 Réttindabarátta og löggjöf – Stjórnsýslukæra

1.26 Réttindabarátta og löggjöf – Starfshópur ráðherra um málefni hinsegins fólks

1.27 Upplýsinga- og kynningarmál – Stattu með!

        1.28 Upplýsinga- og kynningarmál – Bókasafn

1.29 Upplýsinga- og kynningarmál – Heimasíða og Facebook.

2.      Mál sem komu upp eftir síðasta fund

2.1 Almennt félagsstarf – Mannréttindaviðurkenning Samtakanna ´78

3.      Ný mál

3.1 Almennt félagsstarf – Umræðurvettvangur á Facebook – bakhópur fyrir stjórn

 

3.2 Alþjóðamál – Boð um að taka þátt í pallborði á Europride í Oslo 21. júní nk.

3.3 Alþjóðamál – Boð um þátttöku í opnun sýningar í Kaupmannahöfn 23. ágúst

3.4 Alþjóðamál – Verkefnið “Redes contra el Odio” (Networks against hate)

3.5 Alþjóðamál – Ályktun Alþingis um Úganda

 

3.6    Hatursglæpir og hatursorðræða – skráning, tölfræði og birting

 

3.7 Menning og viðburðir – Iceland Queerwaves

 

3.8 Menning og viðburðir – Beiðni Minjasafns Reykjavíkur þátttöku í viðburði

 

3.9 Upplýsinga- og kynningarmál – Átak í kynningu og fjölgun félaga

 

3.10 Réttindabarátta og löggjöf – Fulltrúi S78 í stjórn Mannréttindaskrifstofu

 

3.11 Starfsmannamál – Starf fræðslustjóra

 

Þetta var gert:

1.      Staða mála frá síðasta fundi

1.1    Almennt félagsstarf – Félagsstarf og viðburðahópur

Viðburðahópur. Frestað til næsta fundar. Ábyrgð: GHG – Í vinnslu

1.2    Almennt félagsstarf – Stefnumótun S78 og Samtakamáttur

HM hafði samband við Kára Emil Helgason félagsmann og grafískan hönnuð um að brjóta um efnið til útgáfu á PDF og jafnvel til prentunar. Ákveðið að stefna að koma efninu út 27. júní. Ábyrgð: HM. – Í vinnslu.

1.3    Almennt félagsstarf – Starfshópar/nefndir og fundarpunktar frá stefnumóti

Upplistun starfshópa + fundarpunktar frá 26. apríl. HM búinn að setja drög að fundargerð inn á drif. Gögnin komin í hendur SAS. Ábyrgð: SAS – Í vinnslu.

 

1.4    Almennt félagsstarf – Starfshópur um málefni tvíkynhneigðra

        Frestað til næsta fundar. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

1.5    Alþjóðamál – Úgandaverkefni

Peningarnir. Enn verið að bíða eftir svar talsmanns í Úganda. Staða verkefnisins er óbreytt en stefnt að því að koma upp svæði á google til að dreifa efninu.

Ábyrgð: AÞÓ, VIV, ÁGJ og HM. – Í vinnslu

1.6    Alþjóðamál – Færeyjar og Vestnorrænt samstarf

Unnur Brá Konráðsdóttir formaður Vestnorræna ráðsins verður í sambandi við HM á næstunni. Ábyrgð: HM, AÞÓ – Í vinnslu.

1.7    Alþjóðamál – IDAHOBIT Malta

HM og SAS sóttu IDAHO Forum 2014 f.h. Samtakanna ´78 ásamt Davíð Alexander Christensen sem fór f.h. Trans Ísland. Þau skila greinagerð á næsta fundi.  Kostnaður verður gerður upp á næsta fundi. Ábyrgð: SAS/HM/ÁGJ. – Í vinnslu.

 

1.8    Alþjóðamál – Rússneskir aðgerðasinnar í heimsókn 4. til 7. maí

Rússneskir LGBT aðgerðarsinnar komu í heimsókn í S78 þann 6. maí og funduðu með HM, ÁGJ og USJ um sögu og stöðu hinsegin fólks á Íslandi og í Rússlandi. Fundurinn var afbragð. Þau færðu gjafir. Ábyrgð: HM, ÁGJ, USJ – Lokið.

1.9    Alþjóðamál – Aðild að TGEU, GLISA og félagsgjöld ILGA Europe o.fl.

Aðild að GLISA kostar ekkert og ákveðið að sækja um aðild. Trans Ísland er aðili að TGEU og verður sú aðild látin nægja að sinni. VIV og ÁGJ munu skoða málið frekar og munu tryggja að félagsgjöld ILGA Europe séu greidd í tíma fyrir aðalfund í október. Ábyrgð: ÁGJ og VIV. – Í vinnslu.

 

        1.10 Andlát – Sigþór Sigþórsson

Þorvaldur Kristinsson skrifaði minningarorð fyrir hönd hinsegins samfélagsins. Minningarorð verða birt á heimasíðu félagsins. Ábyrgð: ÁGJ. – Lokið.

 

1.11 Fjármál og fjáröflun – Fjármál ungliða

Ákveðið að veita ungliðum 50.000 króna styrk fyrir árið 2014-2015. Gjaldkeri og formaður ætla að hitta stjórn og starfsmenn ungliða til að ræða um fjárheimildir og ferla. Ábyrgð: VIV – Í vinnslu.

        1.12 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðslubæklingur

Svör hafa ekki borist frá Mannréttindaskrifstofu borgarinnar varðandi prentun bæklings. Erindið verður ítrekað. Ábyrgð: SAS og HM. Í vinnslu

        1.13 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Lögreglubæklingur

Frestað til næsta fundar. Ábyrgð: USJ – Í vinnslu.

1.14 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Málefni intersexfólks

Kitty Anderson fundaði með ráðgjöfum fyrir stuttu S78 og var fundurinn frábær. Sýning á Intersexion: Hinsegin dagar muna sýna myndina og málið í góðum farvegi. Fræðslufundur Kitty Andersen á opnu húsi þann 22. maí nk. Ábyrgð SAS og ÁGJ – Í vinnslu.

1.15 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðsla um fötlun til ráðgjafa

Fræðsla í haust (ágúst/september). Ábyrgðarmaður: SAS. – Í vinnslu.

 

1.16    Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðslufundur í Ráðhúsi

Fresta þarf fræðslu USJ í Ráðhúsi til haustsins. Ábyrgð: USJ – Í vinnslu.

 

1.17 Húsnæðismál – Suðurgata

Ákveðið að skipa Gunnar Helga Guðjónsson og Fríðu Agnarsdóttur til viðbótar við þá fulltrúa sem þegar var búið að skipa í verkefnisstjórn um málefni Suðurgötu – VUMS. Ákveðið að VIV taki að sér verkefnisstjórn til að drífa verkefnið áfram. Verkefnisstjórnin er því skipuð:

Ásta Ósk Hlöðversdóttir

Gunnar Helgi Guðjónsson

Hilmar Magnússon

Svandís Anna Sigurðardóttir

Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, verkefnistjóri

Fríða Agnarsdóttir

 

Málið er þannig statt að HM var í sambandi við Helga Steinar í dag. Ekki borist svar. Ákveðið að VIV kalli saman VUMS til að setja upp verkáætlun. Það þarf m.a. að ákveða vinnudag/helgi fyrir tiltekt og pökkun. Ábyrgðarmenn: HM, SAS, VIV, ÁÓH og ÁGJ. – Í vinnslu.

1.18 Innflytjendur og hælisleitendur – Mál hælisleitanda X

Málið er í vinnslu. Bókað í trúnaðarbók. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

1.19 Lýðheilsa og íþróttir – Lýðheilsuhópur og verkefnisstjórn um HIV tékk

VIV hefur skoðað stofnun lýðheilsuhóps og verkefnisstjórnar um HIV tékk. Frestað til næsta fundar. Ábyrgð: VIV – Í vinnslu.

1.20 Menning og viðburðir – Reykjavík Pride – Innlegg í dagskrárrit

Búið var að vinna grunntímalínu og setja inn viðburði. HM fór yfir um helgina, skrifaði formála og bætti inn fleiri atriðum – sérstaklega hvað varðar réttindabaráttu og löggjöf. Búið að senda Jóni Ágústi hjá Hinsegin dögum efnið. Bíðum viðbragða. Ábyrgð: AÞÓ, ÁGJ og HM.- Í vinnslu.

        1.21 Menning og viðburðir – Þátttaka S78 í Reykjavík Pride

GHG og ÁGJ hafa hist og rætt málið. GHG mun kalla eftir hugmyndum og sjálfboðaliðum í stjórnar- og trúnaðarráðshópi á Facebook. Ábyrgð: GHG og ÁGJ – Í vinnslu.

1.22 Menning og viðburðir – IDAHOBIT 17. maí – Dagskrá og stjórnmálaumr.

Samtökin ´78 héldu árlegan International Day Against Homo-, Bi- & Transphobia hátíðlegan með því að bjóða til viðburðarins „Skipta hinsegin atkvæðin máli?“ Alls mættu um 30 manns, þar af Þorvaldur Þorvaldsson, oddviti Alþýðufylkingar, Eva Einarsdóttir frá Bjartri framtíð, Halldór Auðar Svansson oddviti Pírata, Kristín Soffía Jónsdóttir frá Samfylkingu, Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins og Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri grænna. Teknir voru fundarpunktar. Góður rómur var gerður að fundinum sem þótti innihaldsríkur, málefnalegur og líflegur. Nokkur fjölmiðlaumfjöllun varð vegna óútskýrðrar fjarveru Framsóknarflokksins, en framboðið Dögun boðaði forföll og sendi baráttukveðjur. Ábyrgð: ÁGJ og HM. – Lokið.

 

1.23 Menning og viðburðir – Reykjavíkurmaraþon á Menningarnótt

VIV ætlar bjóða til íþróttafundar sem fyrst. Ábyrgð: VIV – Í vinnslu.

 

1.24    Menning og viðburðir – Fjölmenningardagur í Reykjavík laugard. 10. maí

Um 30 félagar í samtökunum tóku þátt í skrúðgöngu á Fjölmenningardeginum og var almenn ánægja með daginn. Fallið var frá því að vera með kynningarbás þar sem illa gekk að manna hann. Ákveðið að beina frekar kröftum sjálfboðaliða að stjórnmálafundi á IDAHOBIT 17. maí. Ábyrgð: HM – Lokið.

1.25 Réttindabarátta og löggjöf – Stjórnsýslukæra

Engar fregnir af málinu. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

1.26 Réttindabarátta og löggjöf – Starfshópur ráðherra um mál hinsegin fólks

SAS skýrði frá því að nefndin muni funda í næstu viku. Ábyrgð: SAS – Í vinnslu.

1.27 Upplýsinga- og kynningarmál – Stattu með!

Saga film eru til í að aðstoða S78 við að klára verkefnið. Stjórnin lýsir yfir mikilli ánægju með það og færir Saga film kærar þakkir. Ákveðið að boða til verkefnisfundar um handrit, efnistök og framleiðslu. ÁGJ boðar fund. Ábyrgð: ÁGJ og SAS – Í vinnslu.

 

        1.28 Upplýsinga- og kynningarmál – Bókasafn

HM kynnti stjórn greinargerð Þorvaldar Kristinssonar um framgang mála varðandi vinnu þeirra Kolbrúnar Eddu Sigurhansdóttur við upplausn bókasafns og skiptingu þess milli Samtakanna ´78, Borgarbókasafns og Námsbrautar í kynjafræði við Háskóla Íslands til varðveislu á Landsbókasafni-Háskólabókasafni. Greinargerðin er í 10 líðum. Stjórn lýsir yfir mikilli ánægju með störf Þorvaldar og Kolbrúnar. Varðandi einstök atriði í greinargerðinni samþykkir stjórnin:

 

Liður 7

Stjórnin fagnar því að allar bækur verði af söfnunum merktar gefanda innan á fremri kápu bókar. Varðandi þann möguleika að staðsetja skáldritin á Borgarbókasafni í afmörkuðum hillum: Stjórnin fagnar því að þetta sé til skoðunar og óskar eindregið eftir því að bækurnar verði hýstar með þessum hætti – sé þess nokkur kostur.

 

Liður 8

Þorvaldur óskar eftir leyfi til að hafa samband við Ernu Egilsdóttur á Þjónustumiðstöð bókasafna og fara þess á leit að hún annist endursölu þeirra húsgagna sem ekki verða not fyrir í nýju húsnæði félagsins. Samþykkt

 

Að öðru leyti samþykkir stjórn að veita Þorvaldi og Kolbrúnu umboð til að vinna málið áfram skv. því sem greint er frá í greinargerðinni. Sjá greinargerð Þorvaldar Kristinssonar undir Fylgiskjöl 1.1

 

SAS og HM verða í sambandi við Þorvald varðandi formlegt gjafabréf, afhendingarathöfn og ritun bréfs til Landskerfis bókasafna varðandi uppsagnarfrest. SAS falið að ræða við Þorvald um bókagjafanefnd. Ábyrgð SAS. Í vinnslu.

1.29 Upplýsinga- og kynningarmál – Heimasíða og Facebook

Rætt um svörun erinda á Facebook og ábyrgð á því. Mikilvægt er að svara þessum erindum og hefur verið ákveðið að einungis ÁGJ geri það. ÁGJ mun skoða áfram vefsíður annarra félagasamtaka og m.a. skoða kostnað varðandi þær. Rætt betur á næsta fundi. Ábyrgð: KE og ÁGJ – Í vinnslu.

2.      Mál sem komu upp eftir síðasta fund

2.1 Almennt félagsstarf – Mannréttindaviðurkenning Samtakanna ´78

HM talaði um nauðsyn þess að koma viðurkenningu á hreint fyrir Hinsegin daga. Ákveðið að GHG ræði við nefndarmenn í nefnd um viðurkenninguna, Auði Magndísi Auðardóttur, Ástu Ósk Hlöðversdóttur og Sigurð Júlíus Guðmundsson um að klára útfærslu á viðurkenningu S78 þar sem miðað væri við að þau heiti áfram mannréttindaviðurkenning S78 og að ein slík verði veitt á ári. Ábyrgð: GHG – Í vinnslu.  

 

3.      Ný mál

3.1 Almennt félagsstarf – Umræðuvettvangur á Facebook – bakhópur fyrir stjórn

HM viðraði hugmyndir um hvort gæti verið ástæða til þess að stofna stóran umræðuvettvang á Facebook – fyrir almenna félagsmenn. Eins hvort það gæti verið sniðugt að stofna hóp með fyrrverandi formönnum og stjórnarmeðlimum – einskonar þekkingartank sem gæti nýst stjórn til framtíðar í störfum hennar.

Málinu vísað til SAS. Ábyrgð: SAS – Í vinnslu

 

3.2 Alþjóðamál – Boð um að taka þátt í pallborði á Europride í Oslo 21. júní nk.

HM kynnti boð um að tala í pallborði um hinsegin fólk og vinnustaði á Europride í Oslo frá samtökunum Q-Factor og Oslo Pride House. Flug og gisting á eigin kostnað. HM skýrði frá því að hann hefði verið í sambandi við skipuleggjendur. Boðið stendur enn og HM athugar möguleika á að taka þátt á eigin kostnað og mögulega styrki. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

 

3.3 Alþjóðamál – Boð um þátttöku í opnun sýningar í Kaupmannahöfn 23. ágúst

HM kynnti boð frá Tine Blicher-Moritz menningar- og sýningastjóra Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn um að viðveru við opnun sýningarinnar Gay Greenland í Kaupmannahöfn og þátttöku í umræðum um stöðu hinsegin fólks á vestur norðurlöndum að opnun lokinni. Flug og gisting greidd og dagsetning er 23. til 24. ágúst. HM lagði til að alþjóðafulltrúi færi. Samþykkt. Ábyrgð: AÞÓ og HM – Í vinnslu.

 

3.4 Alþjóðamál – Verkefnið “Redes contra el Odio” (Networks against hate)

Verkefnið er á vegum systursamtaka S78 á Spáni FELGTB – Federación Estatal de Lesbianas, Gais, Transexuales y Bisexuales. Verkefnið er fjármagnað í gegnum þróunarstyrki EES og S78 eru partner spænska félagsins. Síðasta stjórn tók ákvörðun um að vera með og nú hefur verkefnið fengið fjármögnun. Spánverjarnir voru í sambandi við HM og SAS á Möltu og hafa nú sent bréf um framhaldið. Þau eru að vinna í að þýða verkefnisáætlun yfir á ensku og senda í næstu viku. Gert er ráð fyrir að þátttaka S78 verði í formi gagnkvæmra þekkingarheimsókna. Ábyrgð: AÞÓ og HM – Í vinnslu.

 

3.5 Alþjóðamál – Ályktun Alþingis um Úganda

HM sagði frá því að Alþingi hefði samþykkt þingsályktunartillögu Össurar Skarphéðinssonar á lokadegi þingsings sl. föstudag. Í ályktuninni eru ný lög í Úganda harðlega fordæmd og utanríkisráðherra falið að skoða leiðir til að auka stuðning við hinsegin fólk í landinu. HM hefur verið í sambandi við ÖS um hvernig hægt sé að fylgja málinu eftir. HM leggur til að hann skrifi grein um málið í blöðin með hvatningu til utanríkisráðherra – ásamt því að senda ráðherra bréf. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

 

3.6    Hatursglæpir og hatursorðræða – skráning, tölfræði og birting

Frestað til næsta fundar. Ábyrgð HM – Í vinnslu.

 

3.7 Menning og viðburðir – Iceland Queerwaves

HM kynnti hugmyndir að því að S78 í samvinnu við hagsmunafélög haldi “off venue” viðburð, Iceland Queerwaves, í húsnæði S78 í byrjun nóvember þegar Iceland Airwaves stendur yfir. Viðburðurinn verði til að vekja athygli á starfi S78, Hinsegin kórsins – og annarra hagsmunafélaga og um leið nýttur til fjáröflunar, kynna til sögunnar íslenska og erlenda hinsegin listamenn og baráttu hinsegin listamanna sem eiga undir högg að sækja víða um heim. HM lagði til að hann setti sig í samband við forsvarsmenn Iceland Airwaves til að kynna hugmyndina og að frekari hugmyndavinna fari fram í Facebookgrúppunni Iceland Queerwaves sem þegar er til frá fyrri tíð þegar hugmyndir voru uppi um þetta. Samþykkt.

Ábyrgð: GHG, HM, VIV og ÁGJ. – Í vinnslu.

 

3.8 Menning og viðburðir – Beiðni Minjasafns Reykjavíkur þátttöku í viðburði

Borist hefur beiðni frá Minjasafni Reykavíkur um samvinnu við S78 um að gera viðburð/sýningu tileinkaða hinsegin sögu þann 27. júlí nk. Ákveðið að fela ÁGJ og GHG að vera í sambandi við Minjasafnið og heyra nánar um hvað þau hafa í huga. Ábyrgð: GHG og ÁGJ – Í vinnslu.

 

3.9 Upplýsinga- og kynningarmál – Átak í kynningu og fjölgun félaga

HM ræddi um nauðsyn átaks í kynningu á félaginu og fjölgun félaga – og nýta til þess hinsegin daga og innlegg S78 í dagskrárrit Hinsegin daga. HM velti því upp að gera mætti lítinn bækling með kynningu á S78 til útdeilingar í Gleðigöngunni – einnig mætti tvinna atriði S78 við tímalínuna sem kemur fram í dagskrárritinu og lýsir starfsemi félagsins sl. ár. HM bað stjórnarfólk að íhuga til hvaða leiða megi grípa. Frestað til næsta fundar. Ábyrgð: SAS, VIV, GHG – Í vinnslu.

 

3.10 Réttindabarátta og löggjöf – Fulltrúi S78 í stjórn Mannréttindaskrifstofu

Ugla Stefanía Jónsdóttir (USJ) tilkynnti um fyrirhugaðan aðalfund Mannréttindaskrifstofu þar sem þarf að skipa að nýju fulltrúa S78. USJ hefur verið fulltrúi S78 á vettvangi Mannréttindaskrifstofu og býður sig áfram fram til starfa. Samþykkt að S78 skipi USJ áfram sem fulltrúa sinn á vettvangi Mannréttindaskrifstofu. ÁGJ falið að tilkynna USJ og koma boðum um ákvörðunina til Mannréttindaskrifstofu. Ábyrgð: ÁGJ – Lokið.

 

3.11 Starfsmannamál – Starf fræðslustjóra

Ugla Stefanía Jónsdóttir fræðslustýra (USJ) vakti nýlega athygli á því að starfstímabil hennar rennur út um mánaðamótin maí/júní. Hún upplýsti stjórn um að nú séu að berast beiðnir um fræðslu á næstunni og því óski hún eftir að stjórn taki sem fyrst ákvörðun um hvort hún eigi að vera að störfum í sumar. VIV hefur skoðað málið og mælir með ráðningu. Ákveðið að VIV hafi yfirumsjón með því að ganga frá ráðningasamningi og starsáætlun og hvað felist í starfinu. Ábyrgð: VIV – Í vinnslu.

 

Fundi slitið kl. 20:12

Næsti fundur verður haldinn mánudaginn 26. maí  kl. 17:30

Kamilla Einarsdóttir ritaði

 

Fylgiskjöl með fundargerð 22. maí 2014:

 

1.1 Greinargerð Þorvaldar Kristinssonar um vinnu við upplausn og afhendingu bókasafns

Reykjavík 17. maí 2014

 

Til stjórnar Samtakanna ´78

Félags hinsegin fólks á Íslandi

 

Að ósk formanns félagsins, Hilmars Magnússonar, vil ég gera stjórn grein fyrir störfum okkar Kolbrúnar Eddu Sigurhansdóttur við bókasafn félagsins þessar vikurnar. Við vinnum nú að því verkefni sem okkur var falið eftir samþykkt á aðalfundi 2014, að leysa upp núverandi bókasafn og skipta því á milli a) Samtakanna ´78, b) Borgarbókasafns og c) Námsbrautar í kynjafræði við Háskóla Íslands til varðveislu á Landsbókasafni-Háskólabókasafni.

 

1. Ég hef haft samband við Þorgerði Einarsdóttur, prófessor í kynjafræði, Pálínu Magnúsdóttur borgarbókavörð og Áslaugu Agnarsdóttur sviðstjóra á Landsbókasafni- Háskólabókasafni og kynnt þeim framkvæmd flutninganna í samræmi við samþykkt aðalfundar. Um það ríkir full sátt við þessa aðila. Þá erum við Kolbrún í nánu sambandi við Landskerfi bókasafna um tæknilega framkvæmd þess arna.

 

2. Vinna okkar felst í því að a) innheimta gögn í óskilum, b) afskrá sannanlega glötuð gögn, c) afskrá af Gegni þann safnkost sem Samtökin halda eftir og færa þá titla yfir á Excel-skjal. Það er síðan stjórnar að ákveða síðar hvort það sem félagið heldur eftir verður til útlána eða skoðunar á skrifstofum félagsins.

 

3. Safnkostur sem verður kyrr í eigu Samtakanna ´78: Allar íslenskar bækur sem nóg er til af á öðrum söfnum, tímarit, mynddiskar, ljósmynda- og listaverkabækur, úrklippusafn, stöku lexíkon sem félaginu muna gagnast vel, svo og skáldverk og fræðirit sem til eru í 2–3 eintökum. Sennilega eru þetta um sjö hillur bóka og átta til tíu hillur mynddiska sem allt ætti að rúmast vel í lokuðum skápum.

 

4. Til Borgarbókasafns: Öll erlend skáldrit (flest í raðnúmerinu 823) að undanskildum erlendum ljóðum og leikritum (810 og 820) sem ganga til Landsbókasafns- Háskólabókasafns þar sem þess háttar rit nýtast best stúdentum og fræðafólki í bókmenntum. Einnig aukaeintök af fræðibókum ef til eru.

 

5. Til Landsbókasafns-Háskólabókasafns: Allar fræðibækur (upp að raðnúmeri 308, svo og raðnúmer í 600 og 700 (heilsufræði og lögfræði), og 900 (ævisögur og sagnfræði). Einnig erlend ljóð og leikrit svo og aukaeintök af skáldsögum ef til eru.

 

6. Framkvæmd þessara flutningar er einföld: Þegar allt hefur verið innheimt af gögnum, eyðir Kolbrún þeim gögnum sem verða kyrr í eigu félagsins en færir titla, höfunda og raðnúmer yfir á Excel-skjal til afnota á skrifstofu félagsins. Þessi vinna stendur yfir og þegar henni er lokið eyðir Landskerfi bókasafna sýnilegum gagnagrunni á Netinu en færir hann yfir í svokallaðan neðri grunn. Þegar söfnin sem í hlut eiga skrá bækurnar í sinni varðveislu „fiska“ þau gögnin upp úr þeim grunni svo að ekki þarf að endurskrá þau. Þetta er einföld aðgerð.

 

7. Allar bækur verða merktar gefanda innan á fremri kápu bókar. Söfnin annast þá merkingu og hafa fallist á hana. Á Landsbókasafni mun bókum verða fyrir komið á 4. hæð safnsins undir flokksnúmeri og lenda þar flestar á tveimur stöðum, undir raðnúmerunum 305 og 306. Borgarbókasafn er að skoða þann möguleika að staðsetja skáldritin í afmörkuðum hillum en ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun um það. Hér væri gott að þekkja skoðun stjórnar á því máli. Ef söfnin óska ekki eftir að nýta stöku bækur, mun formaður Samtakanna ´78 óska þess í gjafabréfi að það efni gangi aftur til félagsins sem þá tekur endanlega ákvörðun um varðveislu eða förgun.

 

8. Með leyfi stjórnar hefði ég kosið að hafa samband við Ernu Egilsdóttur á Þjónustumiðstöð bókasafna sem selur húsgögn og búnað til safna og fara þess á leit að hún annist endursölu þeirra húsgagna sem ekki verða not fyrir í nýju húsnæði félagsins. Þjónustumiðstöðin seldi félaginu húsgögnin á sínum tíma og ef hún vill taka þetta að sér yrði það sennilega í umboðssölu. Hér er um þokkaleg verðmæti að ræða þar sem þetta eru stöðluð húsgögn og víða að finna í söfnum landsins. Þau eru því mjög svo endurnýtanleg, enda vel með farin.

 

9. Í sumar þarf formaður Samtakanna ´78 að senda hlutaðeigandi aðilum, námsbraut í kynjafræði og Borgarbókasafni formlegt gjafabréf þar sem m.a. er kveðið á um varðveislu og þess óskað að afhending verði við opinbera athöfn skv. því sem formaður hefur rætt og mér er kunnugt um. Við Kolbrún stefnum að verklokum í júní og þá er hægt að afhenda bókakassana til safnanna. Athöfn því tengd yrði síðan þegar stjórn ákveður. Mér heyrist á stjórnarfólki að það yrði í september. Þá má líka gera ráð fyrir að töluvert af safnkostinum verði komið í notkun á viðkomandi söfnum.

 

10. Einn hængur er á þessu máli. Þegar ég hafði samband við framkvæmdastjóra Landskerfis bókasafna, Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur, sagði hún að árs uppsagnarfrestur væri á samningi bókasafna við Landskerfi. Ég sagði upp samningnum með tölvubréfi 15. maí, sama dag og við töluðum saman, og sagðist að svo stöddu ekki mótmæla reglum þeirra. En legg til að íhuguðu máli að formaður félagsins riti henni bréf og óski þess að uppsagnarfresturinn verði styttur til muna í ljósi þess hve félagið er fjárvana og efnahagur þess erfiður.

 

Ef stjórn sér einhverja agnúa á þessu máli öllu eða æskir eftir öðrum starfsháttum við framkvæmd mála en hér er lýst þá vænti ég þess að hún hafi samband við okkur Kolbrúnu á næstu dögum.

 

Kær kveðja

 

Þorvaldur Kristinsson