4. Stjórnarfundur

Stjórn Samtakanna ‘78

2014 – 2015

4. fundur

Ár 2014, mánudaginn 5. maí kl. 17.39 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78. Fundurinn var haldinn að Laugavegi 3 í Reykjavík og hann sátu Hilmar Magnússon formaður (HM), Kamilla Einarsdóttir ritari (KE), Svandís Anna Sigurðardóttir varaformaður (SAS), Gunnar Helgi Guðjónsson meðstjórnandi (GHG), Valgerður Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs (VJ), Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson gjaldkeri (VIV)

Boðuð forföll: . Örn Danival Kristjánsson meðstjórnandi (ÖDK), Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir meðstjórnandi (AÞÓ). Auk stjórnar sat fundinn, Árni Grétar (ÁG) framkvæmdarstjóri.

Dagskrá:

1.      Staða mála frá síðasta fundi

1.1    Almennt félagsstarf – Tillaga frá aðalfundi varðandi félagsstarf

1.2    Almennt félagsstarf – Stefnumótun S78 – Samtakamáttur

1.3    Almennt félagsstarf – Starf starfshópa og nefnda

 

1.4    Alþjóðamál – Úgandaverkefni

1.5    Alþjóðamál – Færeyjar og Vestnorrænt samstarf

1.6    Alþjóðamál – IDAHOBIT Malta – fulltrúar

        1.7    Alþjóðamál – Pólskir aðgerðasinnar í heimsókn

        1.8    Alþjóðamál – Rússneskir aðgerðasinnar í heimsókn 4. til 7. maí

1.9    Alþjóðamál – Aðild að TGEU, GLISA og félagsgjöld ILGA Europe o.fl.

 

1.10 Andlát – Sigþór Sigþórsson

 

      1.11 Fjármál og fjáröflun – Styrkjadagatal

 

         1.12 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðslubæklingur

        1.13 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Lögreglubæklingur

1.14 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Málefni intersexfólks

1.15 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðsla um fötlun til ráðgjafa

 

1.16 Húsnæðismál – Suðurgata

 

1.17 Innflytjendur og hælisleitendur – Mál hælisleitanda X

 

1.18 Lýðheilsa og íþróttir – Kominn tími á tékk? – stofnun starfshóps um lýðheilsu

 

1.19 Menning og viðburðir – Reykjavík Pride – Innlegg í dagskrárrit

        1.20 Menning og viðburðir – Þátttaka S78 í Reykjavík Pride

1.21 Menning og viðburðir – IDAHOBIT 17. maí – Dagskrá og stjórnmálaumræður

1.22 Menning og viðburðir – Reykjavíkurmaraþon á Menningarnótt

 

1.23 Réttindabarátta og löggjöf – Stjórnsýslukæra

1.24 Réttindabarátta og löggjöf – Starfshópur ráðherra um málefni hinsegins fólks

1.25 Upplýsinga- og kynningarmál – Stattu með!

        1.26 Upplýsinga- og kynningarmál – Bókasafn

1.27 Upplýsinga- og kynningarmál – Heimasíða og Facebook.

2.      Mál sem komu upp eftir síðasta fund

2.1    Almennt félagsstarf – Hinsegin kennarar – stofnfundur

2.2    Almennt félagsstarf – Starfshópur um málefni tvíkynhneigðra

 

        2.3    Alþjóðamál – Beiðni um styrk til að sækja Nordisk Forum (kvennaráðstefnuna)

 

2.4    Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðslufundur í Ráðhúsi

 

        2.5    Menning og viðburðir – Þátttaka S78 í 1. maí hátíðarhöldum

2.6    Menning og viðburðir – Fjölmenningardagur í Reykjavík laugardaginn 10. maí

3.      Ný mál

3.1    Fjármál og fjáröflun – Fjármál ungliða

Þetta var gert:

1.      Staða mála frá síðasta fundi

1.1    Almennt félagsstarf – Tillaga frá aðalfundi varðandi félagsstarf

GHG hefur skoðað þessi mál. Ekki er talin ástæða til að stofna sér starfshóp. En ákveðið að stofna viðburðahóp á facebook. Öllu félagsfólki boðið að vera með. Ábyrgð: GHG – Í vinnslu

1.2    Almennt félagsstarf – Stefnumótun S78 – Samtakamáttur

Niðurstöður Samtakamáttar 2013. Unnið að útgáfu á PDF og til útprentunar til útsendingar sem fyrst og kynningar í haust í samræmi við ákvörðun síðasta fundar. Ábyrgð: HM. – Í vinnslu.

1.3    Almennt félagsstarf – Starf starfshópa og nefnda

Unnið að upplistun starfshópa svo hægt sé að bjóða félagsmönnum að skrá sig. Ábyrgð: SAS – Í vinnslu.

1.4    Alþjóðamál – Úgandaverkefni

Peningarnir sem við sendum út um daginn hafa ekki skilað sér og erfitt að komast að því hvar þeir eru. Það er starfsmaður Íslandsbanka er með þetta mál í vinnslu. Ábyrgð: AÞÓ, VIV, ÁGJ og HM. – Í vinnslu

1.5    Alþjóðamál – Færeyjar og Vestnorrænt samstarf

Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður og formaður Vestnorræna ráðsins hafði samband á dögunum v. fyrirhugaðrar ferðar til Færeyja í lok maí. Hún hyggst hitta hinsegin fólk í Færeyjum. HM óskaði eftir fundi með henni áður en hún heldur af stað til að ræða stöðuna, möguleg verkefni og styrki til þeirra. HM fundar líklega með henni í þessari viku, ásamt jafnvel AÞÓ og fleirum. Samþykkt að kalla saman fund í Íslandsdeild NALGBTsem fyrst og ræða málin.

Ábyrgð: HM, AÞÓ – Í vinnslu.

1.6    Alþjóðamál – IDAHOBIT Malta – fulltrúar

Í fyrri viku komu skilaboð frá Velferðarráðuneyti. Ráðuneytið býðst til að kosta þriðja fulltrúa frá S78/Trans Íslandi – að hámarki 200.000 kr. HM athugaði möguleikann hjá skipuleggjendum ráðstefnunnar og það er gerlegt að senda þriðja fulltrúa. Nú þarf því að bóka flug, hótel og skrá viðkomandi inn á ráðstefnuna. Fulltrúa Trans Ísland þarf að skipa í kvöld. Ábyrgð: SAS/HM/ÁGJ. – Í vinnslu.

         1.7    Alþjóðamál – Pólskir aðgerðasinnar í heimsókn

ÁGJ tók á móti pólskum aðgerðasinnum frá landssamtökum mannréttindalögfræðinga þann 25. apríl sl. ÁGJ sagði fundinn hafa verið góðan og gestirnir spurt mikið um lagaleg mál. Vildu vita hvernig unnið hefur verið í dómsmálum. Árni og Ugla spjölluðu við þau um starf samtakanna.

Ábyrgð: ÁGJ og USJ – Lokið.

1.8    Alþjóðamál – Rússneskir aðgerðasinnar í heimsókn 4. til 7. maí

Rússneskir LGBT aðgerðarsinnar eru heimsókn á landinu. Ákveðið að funda með þeim kl. 16:00 miðvikudaginn 7. maí nk um stöðuna í Rússlandi og segja frá okkar starfi. Aldís, Ugla, Árni og Hilmar ætla að hitta þau. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

1.9    Alþjóðamál – Aðild að TGEU, GLISA og félagsgjöld ILGA Europe o.fl.

AGJ athugaði málið. Við erum núna í ILGA Europe. Ætlum að skoða betur GLISA, sjálfsagt að vera með ef það kostar ekkert. En kostnaður við TGEU virðist vera of mikill. VIV og ÁGJ ætla að skoða þetta betur fyrir næsta fund.

Ábyrgð: ÁGJ. – Í vinnslu.

        1.10 Andlát – Sigþór Sigþórsson

Sigþór Sigþórsson fyrrum starfsmaður og félagi í S78 andaðist á laugardag fyrir rúmri viku síðan. HM hefur verið í sambandi við Þorvald Kristinsson sem mun skrifa minningargrein f.h. hinsegin samfélagsins. Ákveðið að heiðra minningu Sigþórs með því að setja minningarorð á heimasíðu og senda aðstandendum blóm og kort. Útför Sigþórs verður í vikunni. Ábyrgð: HM. – Í vinnslu.

        1.11 Fjármál og fjáröflun – Styrkjadagatal

HM er búinn að setja upp styrkjadagatal á google og deila með starfsfólki, stjórn og trúnaðarráði. Lagt að félögum að koma með ábendingar um alla mögulega fresti – hvaða styrkir, hvenær, o.s.frv. Ábyrgð: HM og VIV – Lokið.

        1.12 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðslubæklingur

Bæklingurinn er tilbúinn og uppsettur. SAS er búin að setja hann inn á facebook. Við skoðuðum hann. Erum öll sátt við hann. HM hefur eftir fund hans og ÁGJ með mannréttindastýru borgarinnar á dögunum verið í viðræðum við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar um útgáfu bæklings (handout) vegna fjölmenningardags. Borgin er tilbúin til að prenta upplag sem væri hluti af  útgáfu borgarinnar um fræðslu um minnihlutahópa. Hugsanlega með merki borgarinnar og S78. Það var samþykkt. HM mun semja við borgina um stærð upplagsins. Stefnt á að þetta sé komið á pdf form 15. maí, svo framarlega sem hönnuður hafi tækifæri til þess að klára þetta fyrir þann tíma. Ábyrgð: SAS. Í vinnslu.

        1.13 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Lögreglubæklingur

Staðan er þannig að það þarf að vinna betur í þessum bæklingi. Ugla hefur verið að skoða þetta. En það þarf að skoða betur rætur verkefnisins og hafa samband við sænska félagið sem bjó til þennan bækling og athuga hvort þau séu kannski búin að gera nýjan bækling. Ábyrgð: USJ – Í vinnslu.

1.14 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Málefni intersexfólks

Fræðslufundur Kitty Andersen á opnu húsi þann 22. maí nk. Fundi með ráðgjöfum var frestað þangað til annað kvöld. Búið er að stofna teymi með Ástu Kristínu Benediktsdóttur, Baldvin Kára Sveinbjörnssyni, Kittý Andersen og SAS um að fá Intersection myndina hingað til sýninga. Stefnt á að sýna hana í Bíó Paradís og hafa ókeypis inn á viðburðinn. ÁGJ ætlar að búa til viðburð fyrir fræðslufundinn 22. maí. Ábyrgð: SAS/ÁGJ – Í vinnslu.

1.15 Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðsla um fötlun til ráðgjafa

Fræðsla í haust (ágúst/september). Ábyrgð: SAS. – Í vinnslu.

 

1.16 Húsnæðismál – Suðurgata

Búið er að setja upp verkefnisstjórn um málefni Suðurgötu – VUMS og setja upp Facebookhóp. Ákveðið að bjóða tveimur í viðbót í hópinn. Það verður kynnt betur á næsta fundi. Eftirfarandi erindisbréf um umboð og skyldur hópsins samþykkt. Ábyrgð: HM, SAS, VIV, ÁÓH og ÁGJ. – Í vinnslu.

Samtökin ‘78

Erindisbréf VUMS

Verkefnisstjórnar um málefni Suðurgötu 3

Tilgangur, markmið og skipunartími VUMS:

Megintilgangur með skipan Verkefnisstjórnar um málefni Suðurgötu 3, hér eftir nefnd VUMS, er að tryggja öruggt utanumhald um hönnun og framkvæmdir við endurbætur á Suðurgötu 3, ásamt flutningum Samtakanna 78 frá Laugavegi 3 að Suðurgötu 3. Markmiðið er að tryggja skýrt umboð, ábyrgð og boðleiðir og að verkefnið verði farsællega til lykta leitt. VUMS starfar í umboði stjórnar Samtakanna ’78 til loka verkefnisins þann 1. nóvember 2014.

1. Hlutverk og ábyrgðarsvið VUMS

 

1.1

VUMS stýrir verkefninu og tekur ákvarðanir um þau verkefni sem þarf að sinna. Hún gerir tillögur til stjórnar S78 um verktaka og aðra þá er ráða þarf að verkinu, skiptir verkum með þeim sjálboðaliðum sem koma að verkefninu að hálfu S78, og tryggir að verkefni séu leyst hratt og örugglega. VUMS tryggir góð samskipti við hönnuði, verktaka og þá félagsmenn sem þátt taka.

1.2

VUMS hefur ekki umboð til ráðstöfunar fjármuna og þarf eftir sem áður samþykki stjórnar S78 til þess.

 

1.3

VUMS setur upp verkáætlun þar sem fram koma m.a. áætlaður kostnaður, mannafla- og efnisþörf og tímasetningar verkþátta.

1.4

VUMS kallar til fleiri sjálboðaliða að verkefninu eftir þörfum og hefur heimild til að setja upp starfshóp (bakhóp) sjálfboðaliða úr röðum félagsmanna S78 á Facebook til að koma með hugmyndir, ræða málin og bjóða fram krafta sína við framkvæmdir og flutninga.

1.6

VUMS upplýsir stjórn S78 reglulega um framgang verkefnisins og gerir strax viðvart ef upp koma vandamál við framkvæmdina.

 

2. Fulltrúar í VUMS

 

2.1

Í VUMS sitja almennir félagsmenn, fulltrúar úr stjórn og trúnaðarráði S78 enda mikilvægt að hún vinni náið með þeim stofnunum. Framkvæmdastjóri S78 er starfsmaður VUMS en einnig er gert ráð fyrir náinni samvinnu við Helga Steinar Helgason arkitekt.

2.2

VUMS er skipuð eftirfarandi fulltrúum:

 

Ásta Ósk Hlöðversdóttir

Hilmar Magnússon

Svandís Anna Sigurðardóttir

Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson

X (fulltrúi skipaður á næsta fundi)

X (fulltrúi skipaður á næsta fundi)

1.17 Innflytjendur og hælisleitendur – Mál hælisleitanda X

Málið er í vinnslu. Bókað í trúnaðarbók. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

1.18 Lýðheilsa og íþróttir – Kominn tími á tékk? – stofnun starfshóps um lýðheilsu

SAS er búin að hafa samband við Birnu Hrönn Björnsdóttur um stofnun lýðheilsuhóps. Ákveðið að fela VIV að kanna hvernig best verður að þessu staðið – hvort stofna eigi tvo hópa: einn um lýðeilsumál almennt og svo verkefnisstjórn um HIV tékk. Ábyrgð: VIV – Í vinnslu.

1.19 Menning og viðburðir – Reykjavík Pride – Innlegg í dagskrárrit

AÞÓ er búin að búa til grunntímalínu. Það er orðið tæpt að klára þetta, en HM ætlar að senda henni úr ILGA skýrslunni. Við ætlum öll að leggjast á árarnar og klára þetta með glæsibrag. Hafa bæði jákvæða og erfiðari þætti úr baráttunni. Ábyrgðarmaður AÞÓ og ÁGJ.- Í vinnslu.

        1.20 Menning og viðburðir – Þátttaka S78 í Reykjavík Pride

Það þarf að ræða allt í sambandi við sölubása og posa og þess háttar. Það þarf að búa til viðburðarhóp. Athugað með starfshóp um almenn speglamál og útvega sjálfboðaliða í góðum tíma. Þetta þarf að ræða í facebook hóp stjórnar og trúnaðarráðs í vikunni. Ábyrgð: GHG og ÁGJ – Í vinnslu.

1.21 Menning og viðburðir – IDAHOBIT 17. maí – Dagskrá og stjórnmálaumr.

Hinn árlegi International Day Against Homo-, Bi- & Transphobia fellur á laugardag í ár. Sveitarstjórnarkosningar eru 31. maí. Samtökin 78 vilja blanda sér. Bjóða til fundar með frambjóðendum í borginni þann dag í húsnæði samtakanna til að ræða málefni hinsegins fólks. Þarna yrði dreift fræðslubæklingum. ÁGJ muna skipuleggja þetta og er búinn að gera uppkast að bréfi til framboða. ÁGJ mun heyra í Akureyri um að gera e-ð álíka. Bréfið verður sett inn í Facebook. Það þarf að senda út fréttatilkynningu í vikunni og búa til viðburð.- Ábyrgð: ÁGJ – Í vinnslu.

1.22 Menning og viðburðir – Reykjavíkurmaraþon á Menningarnótt

Það þarf að huga að skráningu. ÁGJ er búinn að skrá okkur sem félag sem hægt er að heita á. Þetta verður að ræða fyrir næsta fundi. Ábyrgð: VIV – Í vinnslu.

 

1.23 Réttindabarátta og löggjöf – Stjórnsýslukæra

Málið er í vinnslu. Bókað í trúnaðarbók. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

1.24 Réttindabarátta og löggjöf – Starfshópur ráðherra um mál hinsegin fólks

SAS er fulltrúi samtakanna. Sigurður Júlíus Guðmundsson er varamaður hennar. Fyrsti fundur var í dag. SAS bað um leyfi stjórnar til að deila niðurstöðum könnunar sem gerð var fyrr á árinu um stöðu hinsegin fólks, fræðslubæklingum og skýrslu um Samtakamátt. Samþykkt. Ábyrgð: SAS. – Í vinnslu.

1.25 Upplýsinga- og kynningarmál – Stattu með!

Aðkallandi að ræða á næsta fundi svo hægt sé að taka málið áfram og klára. Ábyrgð: ÁGJ og SAS – Í vinnslu.

        1.26 Upplýsinga- og kynningarmál – Bókasafn

Maí verður sektalaus mánuður. Svo verður safninu lokað á meðan klárað verður að skrá og skipta safninu. Þorvaldur Kristinsson ætlar að tala við Borgarbókasafnið. SAS er búin að ræða við kynjafræði. Þar er mikill áhugi og vilji til að ganga í málið. Ákveðið að stefna að formlegri flutningsathöfn þann 23. september (bi-daginn). Ábyrgð: SAS, ÁGJ og HM – Í vinnslu.

1.27 Upplýsinga- og kynningarmál – Heimasíða og Facebook

Facebookskilaboð – rætt hver svarar þeim. Það verður ÁGJ nema þegar varðar fræðsluna, þá er málum vísað til USJ. Stjórn og starfsmenn séu virk í að setja inn efni á síðuna.  ÁGJ bætir við þeim sem ekki eru komnir inn. Öðru frestað til næsta fundar. Ábyrgð: KE, SAS og HM – Í vinnslu.

2.      Mál sem komu upp eftir síðasta fund

2.1    Almennt félagsstarf – Hinsegin kennarar – stofnfundur

Stjórn hefur borist til eyrna að fyrirhuguð sé stofnun Félags hinsegin kennara. Samtökin ‘78 fagna þessu framtaki og hefur HM boðið verðandi félagi að gerast hagsmunafélag innan vébanda S78. Ábyrgð: HM – Lokið.

2.2    Almennt félagsstarf – Starfshópur um málefni tvíkynhneigðra

        Vísað til næsta fundar. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

        2.3    Alþjóðamál – Beiðni um styrk til að sækja Nordisk Forum

Embla Guðrún Ágústsdóttir, nemi í félags- og kynjafræði við Háskóla Íslands og fulltrúi í trúnaðarráði Samtakanna ’78, sækir um styrk til að sækja ráðstefnuna Nordisk Forum 2014 í Malmö í júní nk. og halda þar vinnustofu.

 

Nordisk Forum er samráðsvettvangur fólks sem vinnur að jöfnum tækifærum kynjanna á Norðurlöndunum. Gert er ráð fyrir 15.000 þátttakendum á ráðstefnunni. Kvenréttindafélag Íslands í samvinnu við Jafnréttisskóla Reykjavíkur og Tabú munu standa fyrir vinnustofu þar sem rýnt verður í jafnrétti í víðum skilningi. Skoðað verður hvernig kyn, kynvitund, kynhneigð, húðlitur og fötlun hefur áhrif á daglegt líf fólks og hvernig fólk í ólíkri stöðu hvað þessa þætti varðar getur unnið saman að bættum heimi.

Stjórn Samtakanna ‘78 fagnar fyrirhugaðri þátttöku Emblu Guðrúnar í ráðstefnunni Nordisk Forum og sérstaklega þeim áherslum sem hún hyggst setja í vinnustofu sinni. Hins vegar hefur félagið því miður ekki fjárhagslegt bolmagn til að veita neina styrki af þessu tagi að svo stöddu. Beiðninni er því hafnað. Stjórnin lýsir sig þó reiðubúna til að aðstoða eftir megni eftir öðrum leiðum – t.d. með því að vekja athygli á málstaðnum.

Ábyrgð: HM – Lokið.

2.4    Fræðsla, ráðgjöf og rannsóknir – Fræðslufundur í Ráðhúsi

USJ ætlar að fræða starfsmenn Ráðhússins um hinsegin málefni á næstunni. Ábyrgð: USJ – Í vinnslu.

        2.5    Menning og viðburðir – Þátttaka S78 í 1. maí hátíðarhöldum

Formaður ánægður með þátt S78 þrátt fyrir að í raun hafi verið um skyndihugdettu að ræða og lítinn undirbúning. Samtökin voru sýnileg og vöktu umræðu. Um 20 þátttakendur sem er meira en þegar hinsegin fólk tók þátt í kröfugöngu 2013. Mikill vilji til að endurtaka þetta að ári en skipuleggja það þá með meiri fyrirvara.

Ábyrgð: HM – lokið.

2.6    Menning og viðburðir – Fjölmenningardagur í Reykjavík laugard. 10. maí

Fram kom hugmynd um að vera með í göngunni sem verður þennan dag, með

borða og fána og kynningu í bás í Ráðhúsi milli 14 og 16. Mæting á Laugavegi 3 kl. 12 og haldið frá Hallgrímskirkju kl. 13. HM ætlar að búa til event um þetta seinna í kvöld. Ábyrgð: HM – Í vinnslu.

3.      Ný mál

 

3.1. Fjármál og fjáröflun – Fjármál ungliða

Verður rætt á næsta fundi. Ábyrgð: VIV – Í vinnslu.

 

Fundi slitið kl. 19:25

Næsti fundur verður haldinn mánudaginn 26. maí kl. 17:30

Kamilla Einarsdóttir ritaði