Fréttir

Þjóðháttarannsókn um samkynhneigð á Íslandi

Um þessar mundir er unnið að þjóðháttasöfnun um samkynhneigð á vegum Þjóðminjasafns Íslands, og af því tilefni hefur verið tekin saman spurningaskrá um framangreint efni. Tilgangurinn með spurningaskránni er að safna upplýsingum um samkynhneigð á Íslandi og er leitast við að hún höfði jafnt til gagnkynhneigðra sem samkynhneigðra einstaklinga. Spurningaskráin er samin af Þorvaldi Kristinssyni sem lengi hefur rannsakað sögu samkynhneigðra, en spurningarskrána vann hann í samvinnu við Þjóðminjasafnið og er hún að hluta til byggð á sænskri spurningaskrá um sama efni.

Allir sem vilja og tök hafa á geta tekið þátt í þessari rannsókn og er fólk hvatt til að leggja henni lið. Sækja má spurningaskrána á vef Þjóðminjasafnsins, www.thjodminjasafn.is en þar er jafnframt nánari leiðbeiningar að finna. Bein slóð á spurningaskrána og nánari leiðbeiningar er að finna á slóðinni:
http://www.thjodminjasafn.is/minjar-og-rannsoknir/thjodhattasafn/rannsoknir/rannsoknir-i-gangi/

Þjóðminjasafn Íslands hefur safnað heimildum um þjóðhætti með spurningaskrám í meira en hálfa öld og aflað gagnmerkra heimilda um líf og hagi þjóðarinnar. Samtökin ´78 hvetja sem flesta til að skoða spurningaskrána og leggja rannsókninni lið.

Klippimynd eftir skáldið H.C.Andersen (1805–1875)