Hinsegin Evrópusamstarf 21. mars, 2011 Stjórn Samtakanna ’78 bað nýverið Hilmar Magnússon, fyrrum stjórnarmann, starfsmann hjá Utanríkisráðuneyti og nema í Alþjóðsamskiptum að sækja ILGA Europe fund í Brussel f.h. samtakanna dagana 1. – 2. apríl næstkomandi. Aðdragandi málsins er sá að ILGA Europe, samtök hinsegin félaga í Evrópu, bauð samtökunum að senda fulltrúa á fundi um eflingu sérstaks tengslanets sem ætlað er að samræma stefnu og aðgerðir gagnvart Evrópusambandinu. Hilmar féllst á þessa málaleitan, en ILGA Europe mun standa straum af ferðakostnaði. Hilmar gerir hér að aftan frekari grein fyrir málum og hinu víðara samhengi: Aðildarumsókn Síðan Íslendingar sendu inn umsókn að Evrópusambandinu þann 16. júlí 2009, hefur mikið um málefnið verið fjallað. Eins og viðbúið var hafa mestu átökin staðið um sjávarútvegs-, landbúnaðar- og gjaldmiðilsmál og hafa ýmis þung orð verið látin falla. Þó má færa rök fyrir því að allar yfirlýsingar um kosti og galla væntanlegs aðildarsamnings séu ótímabærar. Sérstaklega þær hástemmdustu. Rýnivinnan forsenda upplýstrar umræðu Málið er unnið af embættismönnum og hinum tíu samningahópum sem fara með samningskaflana 35. Enn er verið að rýna löggjöf Íslands og ESB með það að markmiði að finna út hvað þurfi að semja um. Í fyrsta lagi má ætla að opnað verði fyrir eiginlegar samningaviðræður á síðari hluta ársins. Upplýst umræða um kosti og galla væntanlegs aðildarsamnings bíður því um sinn. Full ástæða er þó til að hvetja fólk til að kynna sér umsóknarferlið, málaflokkana og Evrópusambandið sem slíkt. Samningar mannréttindi og önnur ósýnileg mál Í umræðunni hefur því miður lítið farið fyrir öðrum málum en sjávarútvegi, landbúnaði og Evru. Enda erfið og umdeild mál og því skiljanlegt að þau beri hátt. Hér verður þó sjónum beint að mannréttindum og hvernig umsóknin sé þegar farin að hafa áhrif á frjáls félagasamtök. Í þessu tilfelli Samtökin ‘78. Mannréttindamálin eru á könnu samningahóps um dóms- og innanríkismál. Hópurinn hefur fengið til meðferðar kafla 23, um réttarvörslu og grundvallarréttindi, og kafla 24, um dóms- og innanríkismál. Mannréttindamálin tilheyra kafla 23. Í umfjöllun hópsins um kaflann segir að ESB setji það skilyrði fyrir aðild að umsóknarríki virði grundvallamannréttindi. Sjálfstæðir og skilvirkir dómstólar séu lykilatriði og ætlast sé til að virðing sé borin fyrir mann- og borgararéttindum. Hlutleysi og fagmennska dómstóla, sanngjörn réttarmeðferð og fleira sem varði dómsvaldið falli hér undir. Þessar reglur séu í anda Mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland sé aðili að. ESB ber lof á vernd mannréttinda á Íslandi Rýnifundi hópsins um kaflann lauk í febrúar. Ekki var rætt um undanþágur, sérlausnir eða aðlaganir, enda ekki talið erfitt að ljúka kaflanum. Hópurinn tók reyndar fram í greinargerð um rýnivinnuna að framkvæmdastjórn ESB hefði borið lof á vernd mannréttinda á Íslandi og því væri sá málaflokkur ekki líklegur til að valda neinum vandræðum. Þá lagði hópurinn til að sáttmáli ESB um grundvallarréttindi verði tekinn til almennrar kynningar og umræðu í samfélaginu. Þannig megi koma í veg fyrir að hann komi fólki á óvart við aðild. Hinsegin Evrópusamstarf En hvernig snýr þetta að félagasamtökum á borð við Samtökin ’78? Jú, meðal hlutverka slíkra samtaka er að halda stjórnvöldum við efnið, því oft er raunveruleikinn ekki í takti við þau fögru fyrirheit sem gefin eru. Stundum gengur stefna stjórnvalda hreinlega gegn mannréttindum. Og þá, eins og á ríkjastiginu, er oft betra að samræma aðgerðir. Félög sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks hafa lengi haft með sér samstarf á alþjóðavísu í samtökunum ILGA. Það er Evrópuhluti samtakanna, ILGA Europe, sem nú hefur boðið Íslendingum til aukins samstarfs. Þá bjóða samtökin stuðning með því að standa straum af ferðum og uppihaldi. Áhugi ILGA beinist í auknum mæli að Íslandi í krafti stöðu landsins sem umsóknarlands og er það engin tilviljun. Stór hluti vinnu ILGA Europe er nefnilega helgaður ESB tengslaneti, sem snýst um að bæta tengslanet hinsegin félaga varðandi stefnu gagnvart ESB. Starfið miðar að því að auka samstarf og samhæfa aðgerðir félaga hinsegin fólks í Evrópu gagnvart stofnunum ESB. Gert er ráð fyrir einum fulltrúa frá hverju aðildar og umsóknarríkja ESB sem hittast tvisvar sinnum á ári og hafa þess á milli með sér rafræn samskipti. Stefna og aðgerðir ILGA Europe Í ljósi þess að yfirvöld hafa víða ekki tryggt mannréttindi hinsegin fólks ræðir ILGA Europe nú m.a. möguleikana á stefnumiðuðum lögsóknum. Þá er vinna við fyrirhugaða Ársskýrslu um stöðu mannréttinda hinsegin fólks hafin, en sú fyrsta mun ná yfir árið 2011. Söfnun upplýsinga stendur yfir og kalla samtökin eftir framlagi einstakra aðildarfélaga, svo skýrslan endurspegli þau málefni sem brenna á fólki í hverju landi. Enn fremur fer nú fram umræða um tillögur framkvæmdastjórnarinnar um gagnkvæma viðurkenningu ríkja á hjónaböndum samkynja para. Slík samevrópsk viðurkenning yrði mjög mikilvæg, en hún mætir harðri andstöðu ýmissa þrýstihópa í Brussel sem beita sér af krafti gegn réttindum hinsegin fólks. Þessi og fleiri mál verða til umræðu á aprílfundi ILGA Europe í Brussel, en fyrirhugaður er annar fundur í Tórínó á Ítalíu síðar á árinu. Efling alþjóðastarfs Samtakanna ’78 með þátttöku félaga Ljóst er að umsóknin að ESB hefur þegar breytt aðkomu Samtakanna ‘78 að mannréttindastarfi á Evrópuvettvangi. Möguleikarnir til þátttöku eru gríðarlegir og jafnvel má sjá fyrir sér að Samtökin ‘78 geti miðlað af sinni reynslu og stutt þannig við þróunina í öðrum ríkjum. Um leið getum við lært af reynslu annarra, byggt upp félagsauð og styrkt þannig eigið starf. Fundinum í Brussel verður jafnóðum gerð skil á vefsíðum félagsins og fyrirhugað er að halda almennan félagsfund að honum loknum til að ræða það sem fram fór. Í framhaldinu verður svo leitast við að virkja félagsmenn til frekari starfa og stefnumótunar í Evrópu- og alþjóðamálum félagsins. Hér hefur lengi ríkt meira frjálslyndi en víða, sem endurspeglast í sterkri lagalegri stöðu. Þótt fordómar og staðalmyndir um hinsegin fólk lifi enn sprellfjörugu lífi á Íslandi, ekki síst í fjölmiðlum, má samt ekki gleyma því að staðan er um margt miklu betri en í mörgum nágrannalöndum. Okkur er skylt og vonandi ljúft að gefa til baka úr þeim sjóði. Tækifærið er núna. Hilmar Magnússon