Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindaráðherra, sagði á Alþingi í dag að innan ráðuneytis hennar væri unnið að setningu einna laga sem gilda eiga um hjúskap, jafnt gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. Hún sagði samrýmingu löggjafar brýna réttarbót sem stefnt sé að fullum fetum. Anna Pála Sverrisdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Rögnu út í hvað liði setningu hjúskaparlaga sem gilda fyrir alla, óháð kynhneigð. Anna Pála sagði Íslendinga vera á eftir mörgum ríkjum Evrópu og auðmýkjandi væri að mismunandi lög gildi um ef einstaklingur elskar konu eða karl. Þá spurði hún ráðherra jafnframt hvort samkynhneigð pör gætu gengið í hjónaband 10. október á næsta ári. Ragna sagði að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kæmi fram að stefna beri að setningu einna hjúskaparlaga. Unnið sé að því í ráðuneytinu en að mörgu þurfi að huga og engu hægt að slá föstu hvað varðar dagsetningar. Heimild. www.mbl.is