Fréttir

Litið um öxl; Outgames leikarnir í Kaupmannahöfn

Það vakti verðskuldaða athygli í haustbyrjun hversu glæsilegu gengi samkynhneigt íþróttafólk frá Íslandi átti að fagna á heimsíþróttaleikunum Outgames í Danmörku. Skemmst er frá því að segja að okkar fólk í sundliði Styrmis reiddi gullmedalíurnar í þverpokum frá mótinu svo að við hálssigi og flugyfirvigt lá.
Til glöggvunar eru Outgames annað tveggja stórmóta samkynhneigðra í íþróttum, en hitt er Gay Games sem stendur á eldri merg í bransanum. Tilurð þeirra fyrrnefndu má rekja til þess að árið 2006 stóð til að halda Gay Games í Montréal, en í skipulagningunni skapaðist ósætti og ágreiningur milli mótshaldaranna í Montréal  annarsvegar og stjórnar G.G. hinsvegar, varðandi fjármál og fyrirhugaða stærð leikanna sem í stystu máli lyktaði þannig að mótshaldararnir slitu viðræðum og í millitíðinni bauð G.G. leikana út að nýju og völdu Chicago sem samstarfsaðila. Kanadamennirnir voru þó ekki af baki dottnir heldur stofnuðu til og héldu sína eigin hinsegin íþróttaleika; Outgames netop.

Af þessu leiddi að árið 2006 var töluvert átakasamt í heimi hinsegin íþróttaiðkunnar og þátttakendur urðu oft að velja á milli viðburðanna, enda ekki nema vika á milli lokahátíðar Gay Games og opnunarhátíðar Outgames. Síðan þá hefur þó rykið sest og málin komin í ákveðinn farveg; mótin tvö stangast ekki lengur á heldur eru bæði á 4ja ára fresti, með amk ársbili innbyrðis. Þangað til og þegar og ef þessir leikar renna saman í einn viðburð á ný munu þeir vonandi bæta hvorir aðra upp í heilbrigðri samkeppni, kannski eitthvað í líkingu við Ólympíu- og Pýþíuleika fornaldar ellegar Heims- og Evrópukeppnirnar í fótbolta á okkar dögum.

En aftur að Köben. Það getur verið erfitt á stundum að lýsa stemmningunni á svona risakeppnismótum samkynhneigðra erlendis. Undirritaður er þekktur fyrir að fara oft fjálglega á flug í frásögnum, og eftir því er erfitt að vera ekki hástemmdur við þetta tækifæri.
Sumir myndu segja að viðburðir sem þessir séu bara enn ein tylliástæðan fyrir homma og lesbíur að detta í það og djamma af sér rottur og kattaraugu enn einusinni, svona eins og stundum hefur heyrst í sambandi við Gay Pride hátíðir í seinni tíð.

Sjálfur er ég hinsvegar annarrar skoðunar eftir að hafa verið virkur þátttakandi í hvorutveggja. Staðreyndin á vettvangi er nefnilega sú að okkur er nákvæmlega jafnmikil alvara í að gera okkar besta á fótboltavellinum eða í sundlauginni eins og hverjum öðrum keppanda í öðrum („straight“) íþróttafélögum. Alveg á sama máta er okkur full alvara í Gleðigöngunni, að berjast gegn mismunum sem og standa vörð um fengnar réttarbætur. Sú síðarnefnda er gleðileg vegna þess að við höfum sem þjóðfélagshópur unnið mikla sigra á síðustu 15 áraum með jákvæðum, uppbyggilegum aðferðum og getum fagnað því með stæl… hún er ekki gleðileg í skilningi þess að réttindabaráttan sem slík sé eitthvað djók.

Það sem er hinsvegar sérlega skemmtilegt og jákvætt við hinsegin íþróttamótin er X-L „ættarmótsstemmningin“. Geri menn sér engar grillur; baráttan inni á velli er fullt eins hörð og jafnvel grimm á stundum eins og í hvaða öðrum leik eða keppni sem væri. En þegar flautan hljómar og menn takast í hendur að leik loknum erum við öll í sama liði, hvor heldur sem sigraði… eða amk eftir nokkrar mínútur þegar bráir af keppnisskapinu! Síðan fer maður í pásunum á milli og horfir á félaga sína í öðrum greinum, eða bara önnur lið hvaðanæva úr heiminum heyja sína hildi.

Jafnvel þótt á móti blási og samkeppnin sé stíf þá er ómetanlegt að taka þátt og vera með. Í þá viku eða svo sem á dvölinni stóð er Kaupmannahöfn orðin smækkuð útgáfa af gay/bi/trans (bara allt stafrófið)menningarkimum ótal landa, sannkallað hinsegin heimsþorp. Á opnunarhátíðinni gengum við öll, hver undir okkar þjóðmerkjum inn á Rådhusspladsen rétt eins og á þessum hinum Ólympíuleikum, sem við sjáum í sjónvarpinu. Þá var undirritaður svo sannarlega stoltur hommi, og aukinheldur fulltrúi sinnar þjóðar. Þess ber annars að geta að frændur okkar Danir stóðu sig frábærlega í allri risavaxinni skipulagningunni, sem rann saman við þeirra eigin Gay Pride hátíð á lokadeginum. Outgames leikarnir samanstóðu síðan ekki einungis af íþróttaviðburðum og keppnum heldur líka endalausu úrvali tónleika, list/kvikmynda/leiksýninga, fræðslustarfi auk mannréttindaráðstefnu sem haldin var í tengslum við dagskrána. Borgin sjálf varð hýrari en nokkru sinni, og mörg torgin voru tekin yfir af hinum svokölluðu Outcities – nk. þorpsútibú og sýningarskálar nokkurra heimsborga gay heimsins, á borð við Rio, Tel Aviv og Melbourne. Okkar eigin Reykjavik, Iceland var boðið að taka þátt en sakir kreppufokks var ekki hægt að grípa það tækifæri að þessu sinni.

Að því framansögðu að viðburðir sem þessir snúist um annað og meira en grunnhyggið glam-djamm þá var ekki leiðinlegt að kíkja út á lífið á lokahátíðinni eftir Prædið þeirra baunanna og láta bjóða sér í glæsileg lokapartí; úrvalið var mikið og erfitt að gera upp á milli í þessu sem öðru á dagskránni. Undirritaður sér þó amk ekki eftir að hafa valið síkjasiglinguna uppá Halvandet, risavaxið klúbbakomplex gegnt Íslandsbryggju með heillandi strandkaffis veröndum og sólpallsstemmningu. Innifyrir: Iðandi mannhafið, óteljandi útitekin andlit með bros á vör og nánd í mund. Við erum öll í sama íþróttaliðinu…

Copenhagen Outgames: Love of freedom – freedom to love

Þ.S.B.